Sport

Aníta aldrei áður fengið svona öfluga samkeppni í hlaupi á Íslandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aníta Hinriksdóttir (lengst til hægri) og Shelayna Oskan-Clarke (lengst til vinstri) voru báðar á palli á EM innanhúss 2017 og keppa aftur á RIG.
Aníta Hinriksdóttir (lengst til hægri) og Shelayna Oskan-Clarke (lengst til vinstri) voru báðar á palli á EM innanhúss 2017 og keppa aftur á RIG. Getty/Michael Steele
Íslenska hlaupadrottningin Aníta Hinriksdóttir mun keppa í 800 metra hlaupi á Reykjavíkurleikunum og Frjálsíþróttasambandið Íslands hefur nú greint frá því að þetta verður sögulegt hlaup.

Aníta mun nefnilega fá hörkusamkeppni frá erlendum keppendum og hún hefur aldrei áður fengið svona öfluga samkeppni í hlaupi á Íslandi.

Aníta keppir meðal annars við hina bresku Shelayna Oskan-Clarke sem fékk silfur í 800 metra hlaupi á EM innanhúss árið 2017 en Aníta vann bronsverðlaun í sama hlaupi.

Shelayna Oskan-Clarke hefur byggt ofan á þetta hlaup sitt á EM 2017. Hún komst í úrslit í 800 metra hlaupi á EM utanhúss í Berlín 2018 og vann síðan bronsverðlaun á HM innanhúss í fyrra. Hún er fjórfaldur breskur meistari.

Oskan-Clarke á best 1:59,81 mín en Íslandsmet Anítu er 2:01,18 mín. innanhúss. Í hlaupinu taka einnig þátt Írinn Claire Mooney sem á best hlaup upp á 2:01,61 mín. og hin bandaríska Olga Kosichenko sem á best 800 metra hlaup upp á 2:02,92 mín.

Mooney er írskur meistari innanhúss og Olga hefur keppt á bandaríska úrtökumótinu innanhúss og utanhúss.

800 metra hlaupið fer fram sunnudaginn 3. febrúar en frjálsíþróttamóti RIG 2019 fer fram í Laugardalshöllinni þann dag á milli klukkan 13.00 og 15.00.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×