Embætti héraðssaksóknara hefur ákveðið að ákæra mann fyrir manndráp sem er grunaður um að valda eldsvoða sem varð tveimur að bana á Selfossi þann 31. október. Ríkisútvarpið greindi fyrst frá ákærunni en Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, hefur staðfest útgáfu ákærunnar í samtali við Vísi.
Kona var einnig handtekin vegna brunans en hún er ákærð fyrir að láta líða hjá að gera það sem í hennar valdi stóð til að þess að vara við eða afstýra eldsvoðanum.
Málið varðar eldsvoða á Kirkjuvegi 18 á Selfossi en maðurinn sem var handtekinn hefur sætt gæsluvarðhaldi frá því í nóvember. Kolbrún segir í samtali við Vísi að ákæran verði birt manninum við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Suðurlands í dag þar sem jafnframt verður farið fram á að gæsluvarðhald yfir honum verði framlengt.
Maðurinn er til vara ákærður fyrir manndráp af gáleysi og einnig fyrir að valda eldsvoðanum.
Ákærður fyrir manndráp vegna brunans á Selfossi
Birgir Olgeirsson skrifar
