Telur að svar Seðlabankans til Samherja hafi ekki verið í samræmi við lög

Telur umboðsmaður að bankinn hafi ekki leyst úr erindinu með fullnægjandi hætti með svari sínu til Samherja en það var í fyrra sem Samherji óskaði eftir því að Seðlabankinn myndi afturkalla ákvörðunina um stjórnvaldssektina.
„Vísaði hann í þeim efnum einkum til þess að niðurstaða bankans um álagningu stjórnvaldssektar hefði ekki verið í samræmi við fyrirliggjandi afstöðu ríkissaksóknara til gildis laga og reglna um gjaldeyrismál sem fullnægjandi refsiheimilda.
Bankinn byggði aftur á móti á því að þessi sjónarmið, um að bankinn hefði ekki byggt ákvörðun sína á fullnægjandi lagagrundvelli, hefðu legið fyrir þegar upphafleg ákvörðun var tekin um stjórnvaldssekt árið 2016. Afstaða bankans til þeirra hefði því verið ljós á þeim tíma,“ segir á vef umboðsmanns.
Umboðsmaður telur að með svari sínu hafi Seðlabankinn ekki tekið afstöðu til þeirra röksemda sem vísað hefði verið til beiðni Samherja til stuðnings.
„Seðlabankanum hefði að minnsta kosti borið að leggja efnislegt mat á þær ástæður sem hann hefði byggt beiðni sína á, og þá einkum tilvísun hans til afstöðu ríkissaksóknara sem varðaði bráðabirgðaákvæði við lög um gjaldeyrismál og reglna Seðlabankans um gjaldeyrismál og þá hvort þær upplýsingar hefðu getað haft þýðingu fyrir úrlausn málsins. Af því leiddi að umboðsmaður taldi svar Seðlabankans ekki í samræmi við lög,“ segir á vef umboðsmanns en hann leggur til að Seðlabankinn taki erindi Samherja að nýju til meðferðar.
Það var í nóvember síðastliðnum sem Hæstiréttur felldi stjórnvaldssekt Seðlabankans á hendur Samherja úr gildi en með dómnum var niðurstaða héraðsdóms staðfest.
Í kjölfar dóms Hæstaréttar óskaði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, eftir greinargerð frá Seðlabankanum vegna málsins. Átti bankinn að skila greinargerðinni í desember en henni hefur ekki enn verið skilað.
Álit umboðsmanns Alþingis má sjá í heild sinni hér.
Tengdar fréttir

Samherjamenn ósáttir við yfirlýsingar um formsatriði og undirbúa skaðabótamál
Sjórnarformaður Samherja segir að félagið undirbúi nú skaðbótamál á hendur Seðlabanka Íslands. Hann segir erfitt að sitja undir yfirlýsingum um að mál Seðlabankans á hendur Samherja hafi fallið á tæknilegum atriðum þegar saksóknari hafi hreinsað félagið af sök.

Varð óvinnufær og þurfti að hætta hjá Samherja eftir rannsókn
Fyrrverandi fjármálastjóri Samherja, fjölskyldumaður úr Svarfaðardal, varð óvinnufær vegna kvíða og þunglyndis og glímdi við meiriháttar kulnun í starfi eftir rannsókn Seðlabankans á Samherja. Hann náði sér aldrei og þurfti að hætta hjá Samherja eftir fjórtán ára starf hjá fyrirtækinu.

Segir það hafa verið ótvíræða skyldu að kæra Samherja
Seðlabankastjóri segir að bankanum hafi verið skylt að kæra Samherja vegna brota á reglum um gjaldeyrismál. Hann hafi kannað að ljúka málinu með sáttaferli, sem lögmenn bankans hafi hins vegar útilokað.