Sport

Ásdís Hjálms í „spjótkasti“ með kúluna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásdís Hjálmsdóttir.
Ásdís Hjálmsdóttir. Getty/Ian Walton
Ásdís Hjálmsdóttir er fremsti kastari landsins og reglulegur fulltrúi Íslands á stórmótum frá árinu 2016. Ásdís hefur verið í fremstu röð í spjótkasti í heiminum í meira en áratug og hún gefur ekkert eftir í undirbúningi sínum fyrir komandi tímabil.

Ásdís Hjálmsdóttir hefur átt Íslandsmetið í spjótkasti í að verða fjórtán ár eða síðan hún bætti það fyrst í maí 2005 þegar hún var aðeins tvítug.

Ásdís hefur einnig verið að ógna Íslandsmetinu í kúluvarpi og var aðeins 25 sentímetrum frá því að jafna það sumarið 2016. Ásdís bætti aftur á móti innanhússmetið í kúlunni fyrir tveimur árum.

Það er því athyglisvert að sjá að hvernig hún blandar þessum tveimur greinum saman á æfingum sínum.

Ásdís leyfir aðdáendum sínum að fylgjast með undirbúningi sínum fyrir tímabilið og þá oft sérstökum æfingum. Þar á meðal er nýjasta myndbandið sem er af frekar óvenjulegri æfingu.

Ásdís sést þar nefnilega í „spjótkasti“ með kúluna eins og sjá má hér fyrir neðan.



Ásdís Hjálmsdóttir er að koma til baka eftir bakmeiðsli en hún æfði og keppti á síðasta ári með brot í bakinu. Það fannst loksins hvað var að eftir tímabilið og hefur okkar kona verið að vinna sig til baka síðan þá.

Ásdís rétt missti af úrslitunum á EM í Berlín síðasta sumar þrátt fyrir meiðslin en tólf efstu komust í úrslit og hún endaði þrettánda.

Ef marka má þessa æfingu hér fyrir ofan þá gengur endurkoman vel og því verður fróðlegt að sjá hversu langt spjótið fer hjá Ásdís á árinu 2019.


Tengdar fréttir

Ásdís og Guðni valin best

Ásdís Hjálmsdóttir, spjótkastari úr Ármanni, og Guðni Valur Guðnason, kringlukastari úr ÍR, voru valin frjálsíþróttafólk ársins á uppskeruhátíð FRÍ um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×