„Það var í gær [fyrradag] eftir æfingu, um tvö leytið. Þá las Gummi upp hópinn fyrir okkur. Það var í fyrsta skipti sem ég vissi að ég væri að fara,“ segir Teitur Örn um stóru stundina.
„Ég bjóst ekki við þessu. Ég var bara í fríi hérna á Íslandi og þá kallaði Gummi mig inn á æfingu á mánudaginn. Það hlaut að vera einhver ástæða fyrir því. Hlutirnir eru fljótir að breytast í þessu.“
Það skortir ekki á sjálfstraustið hjá örvhentu skyttunni sem kastar bolta fastar en margur og fékk viðurnefnið Heitur Teitur í Olís-deildinni því stundum rann á hann æði í markaskorun. Hann gaf aldrei upp vonina og hlakkar til mótsins.
„Ég var í stóra 28 manna hópnum þannig ég var alltaf inn í myndinni. Svo þegar ég er kallaður inn á æfingu mætti ég bara og var klár. Ég ætlaði mér að sýna mig og ég þarf að sanna mig ef ég ætla að eiga sæti í þessu liði. Ég tel mig vera fullkláran í það að mæta á þetta mót og keppa við þessa kalla,“ segir Teitur.

„Það hefur alltaf verið markmiðið að spila í íslensku treyjunni á stórmóti. Ég veit ekki alveg hvað skal segja um þegar að ég heyrði nafnið. Ég var bara þvílíkt sáttur að vera loksins kominn á þennan stað,“ segir Teitur.
„Þetta hefur alltaf verið markmiðið. Ég er búinn að spila mikið í vetur í Meistaradeildinni og fá þar smjörþefinn af þessum stóru köllum. Nú er þannig séð alvöru próf að sjá hversu langt ég er kominn.“
Það verður væntanlega nóg spjallað um Pylsubarinn, Huppu, Ingó Veðurguð og öll hin helstu kennileiti Selfoss innan veggja íslenska liðsins enda hvorki fleiri né færri en fjórir Selfyssingar í hópnum (Teitur, Haukur Þrastar, Elvar Örn og Ómar Ingi) auk Bjarka Más Elíssonar sem kom þar við á sínum yngri árum.
„Við erum fimm í liðinu og það er bara frábært. Það er gaman að sjá að Selfyssingar eru að skila einhverju sem nýtist Íslandi. Ég er bara ánægður með það enda mikill Selfyssingur,“ segir Teitur Örn Einarsson.
Allt viðtalið má sjá hér að neðan.