Ein algengasta ástæðan fyrir heimsóknum fólks til augnlækna er augnþurrkur. Talið er að um fimm til þrjátíu prósent fimmtíu ára og eldri þjáist af sjúkdómnum en erfiðlega hefur gengið að ná fullum bata með þeim meðferðum sem hafa verið notaðar hér á landi hingað til.

„Algengasta ástæðan fyrir augnþurrki eru vanvirkir fitukirtlar. Það eru þó til aðrar ástæður eins og offjölgun á augnháramítli en hann getur valdið þurrki og sárindum í augum,“ segir Sigurlaug.
Hún segir að flestir séu með augnháramítil en hann smitist milli fólks. Mítillinn nærist á bakteríum og húðfrumum en hægt er að fara í meðferð ef hann fjölgar sér of mikið.
Sigurlaug segir hins vegar að nýbyrjað sé að nota tæki sem nefnist E-Eye sem sé bylting við augnþurrki sem stafar af vanvirkum fitukirtlum í augum. Um 85% þeirra sem hafi farið í hana erlendis hafi náð einhverjum bata.
„Við byrjuðum að bjóða meðferðina hér í desember og alls hafa sautján manns komið í fulla meðferð, þeir hafa allir sýnt einhvern bata. Meðferðin hjálpar fitukirtlunum í augunum innan frá og mýkir þá þannig að batinn kemur fyrr og varir lengur,“ segir Sigurlaug að lokum.