Ólíkt fyrstu tveimur leikdögunum á Ísland nú fyrsta leik dagsins í Ólympíuhöllinni af þremur en það sama verður uppi á teningnum þegar að strákarnir okkar mæta Japan á fimmtudaginn. Sá leikur fer einnig fram klukkan 15.30 að þýskum tíma.
Okkar menn voru mættir í höllina klukkan 14.00, hálfri annarri klukkustund fyrir leik og röltu þá inn í sal og tóku lífinu með ró. Björgvin Páll Gústavsson var með músík í eyrunum og gekk á milli marka þungt hugsi að reyna að koma sér í stuð fyrir daginn.
Bjarki Már Elísson var að klára að borða og tók einnig stuttan göngutúr um völlinn á meðan nokkrir aðrir landsliðsmenn sátu á öðrum varamannabekknum og kláruðu úr rjúkandi kaffibolla.



