Handbolti

Aron: Komu nánast slefandi út af

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Kristjánsson er landsliðsþjálfari Barein.
Aron Kristjánsson er landsliðsþjálfari Barein. Getty/Carsten Harz
Barein hefur tapað öllum þremur leikjum sínum til þessa á HM í handbolta, í dag tapaði liðið fyrir Íslandi með átján marka mun, 36-18. Aron Kristjánsson, fyrrum landsliðsþjálfari Íslands, er þjálfari Barein.

„Þetta var erfiður leikur og það sem ég hræddist svolítið fyrir leikinn. Leikurinn í gær dró virkilega af mönnum en líkamlega formið er ekki betra en þetta,“ sagði Aron eftir tapið við Tómas Þór Þórðarson.

„Við erum með litla breidd og þegar við spilum tvo daga í röð og erum að skipta mikið þá vilja gæðin detta út hjá okkur,“ bætti hann við. „Það var mjög erfitt að koma leikskipulaginu að í dag, hvort sem það var í vörn eða sókn. Ég skrifa það á þreytuna.“

„Þeir komu hver á eftir öðrum, nánast slefandi, út af vellinum,“ sagði Aron sem bætti við að markverðirnir hefðu átt jafn erfitt uppdráttar, enda vörðu þeir bara tvö skot frá íslenska liðinu allan leikinn.

„Ég ákvað að leyfa minni spámönnum að spreyta sig en þeir náðu ekki sínu besta. En það var líka gert til að hlífa aðeins hinum og passa meiðsli. En í staðinn fengum við þessa útreið,“ sagði Aron.

„Hvað okkur varðar snerist þetta um það hvort við gætum strítt aðeins Makedóníu og unnið Japan,“ sagði Aron en Barein tapaði í gær fyrir Makedóníu, 28-23. Barein spilar svo gegn Japan í lokaumferð riðlakeppninnar á fimmtudag.

Klippa: Aron: Þeir komu slefandi út af



Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×