Capacent í Svíþjóð hefur aukið hlut sinn í Capacent á Íslandi með kaupum á 4,1 prósents hlut í síðarnefnda félaginu. Eftir kaupin fer sænska félagið með 66,6 prósenta hlut í Capacent á Íslandi.
Þetta kemur fram á vef sænska félagsins, Capacent Holding AB, en það festi sem kunnugt er kaup á meirihluta hlutafjár í Capacent á Íslandi fyrir tæpum tveimur árum.
Kaupverðið á 4,1 prósents hlutnum er fimmföld EBITDA, afkoma fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir, og er greitt með reiðufé. Seljandi hlutarins er Capacent á Íslandi sem hafði keypt hann af fyrrverandi starfsmönnum ráðgjafarfyrirtækisins.
Haft var eftir Edvard Björkenheim, framkvæmdastjóra Capacent í Svíþjóð, í tilkynningu vegna kaupanna á meirihluta hlutafjár í Capacent á Íslandi í febrúar árið 2017 að ráðgjafarfyrirtækið ætti mörg sóknarfæri hér á landi.
Margvísleg samlegðaráhrif væru af kaupunum og hægt yrði að sameina krafta, mannauð og þekkingu til þess að takast á við stærri verkefni.
Capacent Holding AB hefur verið skráð á Nasdaq First North markaðinum í Stokkhólmi frá árinu 2015. Hjá félaginu starfa um 150 manns á fimm skrifstofum í Svíþjóð, Finnlandi og á Íslandi. Sænska félagið var upphaflega stofnað árið 1983 sem hluti af alþjóðafyrirtækinu ABB.
