Erlent

Fjögurra saknað eftir snjóflóð í Noregi

Kjartan Kjartansson skrifar
Norsk björgunarþyrla. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki.
Norsk björgunarþyrla. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki. Vísir/EPA
Þriggja Finna og eins Svía er saknað eftir snjóflóð sem féll á vinsælu skíðasvæði í norðanverðum Noregi í gær. Óttast er að flóðið hafi hrifið fólkið sem var á skíðum með sér. Veður hefur stöðvað leit að fólkinu í dag en hún er sögð halda áfram.

Snjóflóðið féll í Tamokdal í Tromhéraði. Leit hófst að fólkinu þegar sænskur félagi þess tilkynnti um að þess væri saknað. Aftenposten segir að lögregla leggi áherslu á að björgunaraðgerðir standi enn yfir þar sem vonir standi enn til að fólkið finnist á lífi.

Aðstæður eru hins vegar þær verstu til leitar; rok, snjókoma og lágskýjað. Leitarflokkar hafa því ekki komist út í dag. Ólíklegt er talið að hægt verði að senda út leitarþyrlur í dag.

Fólkið, þrír finnskir karlar og sænsk kona, sást síðast um klukkan 14 að staðartíma í gær. Stórt snjóflóð féll á þeim slóðum í dalnum þar sem ferðafólkið var á ferð. Skíðaslóð hefur fundist á leið inn í flóðið en ekki undan því.

Flóðið er sagt hafa verið um 300 metra breitt og 500-600 metra langt og fallið rétt undan tindi Blábersfjalls í sveitarfélaginu Balsfirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×