Innlent

Miðflokkurinn og ríkisstjórnin koma illa út og Lilja út af þingi

Kjartan Kjartansson skrifar
Lilja Alfreðsdóttir þyrfti að finna sér nýja vinnu ef úrslit næstu kosninga yrðu í samræmi við þjóðarpúsl Gallup.
Lilja Alfreðsdóttir þyrfti að finna sér nýja vinnu ef úrslit næstu kosninga yrðu í samræmi við þjóðarpúsl Gallup.
Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, kæmist ekki inn á þing og Miðflokkurinn tapaði rúmum helmingi þingflokks síns ef kosið yrði til Alþingis nú ef marka má nýjan þjóðarpúls Gallup. Innan við helmingur svarenda í könnunni sagðist styðja ríkisstjórnina.

Framsóknarflokkurinn fengi engan þingmann kjörinn í Reykjavíkurkjördæmunum þrátt fyrir að hann bæti við sig fylgi miðað við niðurstöður könnunarinnar. Hann fengi samtals sjö þingmenn, sex úr landbyggðarkjördæmum og einn úr Kraganum, að því er kemur fram í frétt Ríkisútvarpsins.

Stuðningur við Miðflokkinn hefur dregist töluvert saman. Þannig fengi flokkurinn aðeins þrjá menn kjörna en hann hefur nú sjö menn á þingi.

Ríkisstjórnin mælist með stuðning 45% svarenda. Saman fengju ríkisstjórnarflokkarnir þrír 30 þingmenn kjörna og væri því fallin. Allir myndu þeir tapa þingmönnum en Viðreisn og Píratar bæta við sig.

Nær 23% sögðust myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, rúmlega 18% Samfylkinguna, tæplega 12% Vinstri græn , tæplega 11% Pírata og Viðreisn.

Könnunin var gerð dagana 3. desember til 1. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×