Heilbrigðisráðherra hafnar því að verið sé að draga úr greiðsluþátttöku ríkisins vegna tæknifrjóvgana en breytingar voru gerðar á reglugerð um greiðsluþáttöku nú um áramótin. Tilvera, samtök um ófrjósemi segja breytinguna hafa stóraukinn kostnað í för með sér fyrir sjúklinga í tæknifrjóvgunarmeðferðum.
Fæðingartíðni á Íslandi hefur fallið nær jafnt og þétt frá árinu 1960 þegar hún var mest. Á vef Hagstofunnar segir að frjósemi kvenna á Íslandi árið 2017 hafi verið minni en nokkru sinni áður en þá var frjósemi 1,71 barn en yfirleitt sé miðað við að frjósemi þurfi að vera um 2,1 barn til þess að viðhalda mannfjöldanum til lengri tíma litið. Frjósemi hefur aldrei verið lægri á Íslandi frá því að mælingar hófust árið 1853.

Ný reglugerð var samþykkt og tók gildi á 11 dögum
Heilbrigðisráðuneytið tilkynnti fyrir áramótin breytingar á reglugerð um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tæknifrjóvganir sem veittar eru án samnings við Sjúkratryggingar Íslands.
Fyrir breytingu var engin greiðsluþátttaka af hendi ríkisins í fyrsta skipti glasafrjóvgunar og smásjárfrjóvgunar en fimmtíu 50% þátttaka ef framkvæmda þurfti aðgerðina í annað, þriðja og fjórða skipti. Eftir breytingu tekur ríkið þátt í kostnaði sem nemur 5% í fyrsta skipti glasafrjóvgunar og smásjárfrjóvgunar. 30% ef farið er í annað skipti en ríkið tekur engan þátt ef farið er í þriðja eða fjórða skipti.

Reglugerðarbreytingin gerð vegna tveggja þátta
Heilbrigðisráðaherra segir að ráðist hafi verið í breytingu þessarar reglugerðar vegna tveggja þátta sem ekki hafi verið tekið tillit til í fyrri reglugerð.
„Það er í fyrsta lagi að koma til móts við fyrstu meðferð þar sem það var engin greiðsluþátttaka og í öðru lagi að hverfa frá því að það yrði ekki þátttaka fyrir þá sem ættu börn fyrir,“ segir Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.
Tilvera, samtök um ófrjósemi gagnrýna breytinguna og sagði Björn Gunnar Rafnsson, varaformaður samtakanna í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag að þessi mikla lækkun ríkisins í greiðsluþáttöku hefði verið þvert á væntingar og að með breytingunni væri kostnaður þeirra sem færu í fjórar meðferðir að aukast um 507 þúsund krónur.

Ekki verið að draga úr greiðsluþátttöku heldur verið að færa til fé
Heilbrigðisráðherra hafnar því að verið sé að draga úr greiðsluþátttöku með breytingunni heldur verið sé að færa fjármagn til innan kerfisins. Í ljósi þess að greiðsluþátttaka hins opinbera er nú 5% við fyrstu meðferð hefði þá ekki verið hægt að hækka það hlutfall í ljósi þess að ríkið tekur ekki lengur þátt í þriðju og fjórðu meðferð.
„Það lá fyrir að það stæði ekki til að auka fjármagn inn í þetta þannig að við erum í raun og vera bara að hliðra og koma þá til móts við þá sem að eru flestir þarna sem að eru þeir sem eru að fara í fyrsta sinn,“ segir Svandís