Innlent

Sigurður kýs að tjá sig ekkert frekar

Birgir Olgeirsson og Kolbeinn Tumi Daðason skrifa
Sigurður Ragnar Kristinsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Sigurður Ragnar Kristinsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Vísir/Vilhelm
Sigurður Ragnar Kristinsson, sem sætir ákæru héraðssaksóknara fyrir að hafa lagt á ráðin um innflutning á fimm kílóum af amfetamíni hingað til lands frá Spáni í janúar í fyrra, neitaði að tjá sig þegar aðalmeðferð í málinu hófst við Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun.

Sigurður er einn þriggja ákærðra í málinu og stóð til að hann yrði fyrsta vitni í dag. Hann tjáði dómara að hann hefði þegar svarað öllum spurningum rannsakenda við rannsókn málsins, sagt satt og rétt frá því sem hann vissi um málið, og hefði ekki neitt við það að bæta.

„Ég kýs að tjá mig ekki frekar. Ég hef tjáð mig um málið í skýrslutökum,“ sagði Sigurður. Dómari spurði Sigurð hvort hann hefði kynnt sér öll gögn málsins, þ.e. það sem haft væri eftir honum hjá lögreglu.

„Ég hef gert það,“ sagði Sigurður. Bað dómari hann um að staðfesta að orð hans hjá lögreglu væru rétt sem hann og gerði.

„Ég hef farið í margar skýrslutökur og það liggur allt fyrir í gögnum málsins.“

Sigurður Kristinsson ásamt verjanda sínum Stefáni Karli Kristjánssyni.Vísir/Vilhelm

Játar aðild en ósammála styrkleika og magni

Sigurður játaði aðild að málinu við yfirheyrslur hjá lögreglu en neitaði sök við þingfestingu málsins og gekkst hvorki við tegund né því magni efna sem getið er um í ákæru. Fréttablaðið greindi frá því í nóvember að verjandi Sigurðar gerði meðal annars athugasemdir við vigtun þeirra efna sem haldlögð voru á af spænskum lögregluyfirvöldum en þeim mun hafa verið eytt áður en frekari greining, sem íslenska lögreglan óskaði eftir, hafði farið fram.

Sigurður segist sjálfur hafa komið efnunum fyrir í skákmunum og sent til Íslands. Spænsk og íslensk lögregluyfirvöld virðast hafa verið vel með á nótunum því áður en skákmunirnir voru sendir frá Spáni til Íslands var fíkniefnunum skipt út fyrir gerviefni. Amfetamínið fór því aldrei úr landi.

Málið er athyglisvert fyrir margra hluta sakir. Eiginkona Sigurðar lenti í skelfilegu slysi um það leyti sem Sigurður hélt til Íslands til þess að láta handtaka sig. Þá varð Skáksamband Íslands óvænt aðili að málinu sem hefur síðan stundum verið kennt við sambandið.

Sunna Elvira Þorkelsdóttir, fyrrverandi eiginkona Sigurðar, er ekki á vitnalista ákæruvaldsins en þau bjuggu saman á Spáni þegar meint smygl var undirbúið. Sunna var í farbanni á Spáni á fyrri hluta ársins vegna rannsóknar málsins en hún lá þá á spítala eftir að hafa fallið milli hæða á heimili sínu, lamaðist við fallið og notast við hjólastól.

Kynntist mönnum á Benidorm

Fyrstu fréttir af málinu sneru að fíkniefnafundi í húsakynnum Skáksambands Íslands þann 8. janúar, tæpum þremur vikum áður en Sigurður kom til landsins. Pakki með ætluðum fíkniefnum barst Skáksambandi Íslands þar sem forseti sambandsins veitti honum viðtöku.

„Ég var varla byrjaður að opna pakkninguna, þá kemur sérsveitarmaður með lambhúshettu og allan pakkann, hann réðst kannski ekki að mér en ýtti mér upp að veggnum þar sem mér er haldið,“ sagði Gunnar Björnsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Á annan tug sérsveitarmanna komu að aðgerðunum í húsakynnum Skáksambandsins í Faxafeni en enginn handtekinn ef frá er talinn forseti Skáksambandsins. Honum var sleppt um leið og ljóst lá fyrir að hann tengdist málinu ekki á nokkurn hátt.

Frétt Stöðvar 2 frá 13. janúar 2008 má sjá hér að neðan.



Í framhaldinu voru tveir menn handteknir, grunaðir um aðild að málinu. Annar, Hákon Örn Bergmann, sem handtekinn var á veitingastaðnum Hvíta riddaranum, tjáði lögreglu að Sigurður ætti „100%“ fíkniefnapakkann. 

Sá sagðist hafa rætt við Sigurð í síma á milli jóla og nýárs. Þá hefði Sigurður nefnt hinn manninn á nafn varðandi ráðstöfun fíkniefnanna.

Fékk lögregla úrskurð til að hlera síma hins meinta samverkamanns. Renndi sú aðgerð stoðum undir grun lögreglu að maðurinn væri afkastamikill í sölu og dreifingu fíkniefna. 

Nefndi samverkamann sem síðar var sleppt

Sigurður flaug svo til Íslands þann 25. janúar og var handtekinn við komuna. Frá upphafi viðurkenndi Sigurður að hafa komið að skipulagningu á innflutningi á fíkniefnunum. 

Hann hefði meðal annars komið til landsins sjálfviljugur til þess að vitnið, sem hafði sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins, yrði leyst úr haldi. Um var að ræða þann sem Sigurður ræddi við í síma milli jóla og nýárs.

Sigurður nefndi sama manninn og vinur hans hafði nefnt sem samverkamann sinn. Voru þeir báðir úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Rannsókn lögreglu, meðal annars fyrrnefndar hlerunaraðgerðir, leiddi í ljós að sá maður tengdist málinu ekkert þrátt fyrir að ýmislegt benti til þess að hann væri í fíkniefnasölu. Var honum sleppt.


Sigurður segist hafa hitt menn frá Mið-Austurlöndum í sólinni á Benedorm.

Menn frá Mið-Austurlöndum

Fréttablaðið segir frásögn Sigurðar í skýrslutöku lögreglu á þann veg að hann hafi kynnst mönnum frá Mið-Austurlöndum á Benidorm á Spáni í desember. Hann hafi fengið fíkniefni upp á hótel og þar pakkað þeim inn í skákmuni.

Hann hafi fengið hugmyndina að því að fela fíkniefni í skákmunum eftir að hafa lesið sér til um Norðurlandamót í skák. Ákvað hann að kaupa taflmenn og stíla sendinguna á Skáksamband Íslands.

Sigurður sagðist hafa varið um fjórum klukkustundum í að umpakka fíkniefnunum og koma þeim fyrir í taflmönnunum. Hann sagðist hafa brotið botninn á taflmönnunum og svo steypt hann aftur og notað hárþurrku til að þurrka gipsið.

Í kjölfarið hafi hann farið með taflmennina í málun og látið mála þá gyllta og silfraða, og svo látið útbúa granítplötur undir taflmennina. Þeir sem útbjuggu granítplöturnar sendu pakkann svo til Íslands, að beiðni Sigurðar. 

Efnin bárust hins vegar aldrei til Íslands því áður en þau fóru úr landi komust lögregluyfirvöld yfir skákmunina. Fjarlægðu þau fíkniefnin og skiptu þeim út fyrir gerviefni. 

Lömuð eiginkona á Spáni

Málið hefur ekki síst vakið athygli vegna aðstæðna í fjölskyldu Sigurðar Ragnars. Eiginkona hans, Sunna Elvíra Þorkelsdóttir, lamaðist við hátt fall í húsi þeirra á Málaga frá Spáni. Var Sigurður Ragnar handtekinn grunaður um aðild að fallinu en sleppt skömmu síðar. Hélt hann í framhaldinu strax til Íslands sem þótti athyglisvert í ljósi slyss Sunnu Elvíru.

Sunna var lengi vel í farbanni, fékk ekki flutning á betra sjúkrahús á Spáni og liðu tveir mánuðir áður en hún var flutt til Íslands. Sagðist hún í viðtali við Stöð 2 sem minnst vilja vita af fíkniefnamáli eiginmanns síns. Þá segist hún ekki muna hvað gerðist sem varð til þess að hún féll á heimili þeirra Sigurðar og slasaðist.

„Ég trúi því að maðurinn minn hafi ekki átt neinn þátt í þessu. Hann er ekki ofbeldismaður. Þannig að ég held að ég geti fullyrt að hann hafi ekki komið að þessu. Þetta er bara slys,“ sagði Sunna. 

Sunna sagðist í viðtali við Ísland í dag í nóvember síðastliðnum enn ekkert muna hvað varð til þess að hún féll á milli hæða. Hún vildi ekki líta í baksýnisspegilinn heldur horfa fram á veginn.

137 milljóna króna sekt

Sigurður var í Héraðsdómi Reykjaness í desember dæmdur í 20 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir meiriháttar skattalagabrot í rekstri verkatakafyrirtækisins SS verks ehf. Þá var honum einnig gert að greiða 137 milljónir króna í sekt til ríkissjóðs sem skal greiðast innan fjögurra vikna.

Ellegar skal hann sæta fangelsisvist í 360 daga.


Tengdar fréttir

Sigurði gert að greiða 137 milljóna sekt

Sigurður Ragnar Kristinsson var í Héraðsdómi Reykjaness í dag dæmdur í 20 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir meiriháttar skattalagabrot í rekstri verkatakafyrirtækisins SS verks ehf.

Játuðu hjá lögreglu en neita fyrir dómi

Sigurður Kristinsson neitaði sök þegar hann tók afstöðu til ákæru héraðssaksóknara í svokölluðu Skáksambandsmáli í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Sunn­a Elvir­a ekki á vitn­a­list­a í Skák­sam­bands­mál­in­u

Sunna Elvira Þorkelsdóttir, sem lamaðist til lífstíðar eftir að hafa fallið um fjóra metra á heimili sínu í Málaga á Spáni og sætti farbanni vegna fíkniefnamáls, kemur ekki til með að bera vitni í Skákasambandsmálinu svokallaða. Sigurður Kristinsson, fyrrverandi eiginmaður Sunnu, er einn þriggja sakborninga í málinu, sem snýr að smygli á fíkniefnum til landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×