„Ég er jákvæð í garð allra mála sem teljast til umbóta í menntakerfinu. Menntamálin eru stærsta hagsmunamál þjóðarinnar og auðvitað vilja allir vinna að framgangi þeirra. Þannig að ég fagna liðsauka í þeim efnum,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, um fyrirhugað frumvarp Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, þingkonu Sjálfstæðisflokksins, um opnari háskóla.
Áslaug Arna vill að háskólarnir fái aukið svigrúm til að innrita nemendur óháð því hvort þeir eru með prófgráður eða ekki.
Lilja segist mjög ánægð með þennan áhuga á menntamálum sem sé að finna í þinginu og um allt land.
„Það er jákvætt þegar þingmenn eru að láta stóru málin til sín taka,“ segir Lilja. Unnið sé að langtímastefnu í menntamálum í víðtæku samráði út í samfélagið.
