Innlent

ADHD samtökin gagnrýna starfsfólk landlæknis harðlega

Andri Eysteinsson skrifar
Alma D. Möller landlæknir og Elín H. Hinriksdóttir formaður ADHD samtakanna.
Alma D. Möller landlæknir og Elín H. Hinriksdóttir formaður ADHD samtakanna. Stöð 2 / Aðsent
Stjórn ADHD samtakanna gagnrýnir í ályktun sinni starfsfólk embættis Landlæknis vegna villandi málflutnings. ADHD samtökin segja málflutning embættisins um meintar ofgreiningar og óeðlilegrar notkunar lyfja vegna ADHD ekki byggja á vísindalegum forsendum og sé í besta falli mistúlkun á fyrirliggjandi gögnum

Í frétt Ríkisútvarpsins frá því fyrr í mánuðinum segir að embætti landlæknis óttist að ofvirknigreiningar séu óhóflegar hér á landi, í fyrra hafi þó í fyrsta sinn dregið úr ávísunum lækna á ofvirknilyf eins og Rítalín. Ólafur B. Einarsson sérfræðingur hjá Landlækni segir þetta stórar fréttir enda hafi notkun lyfjanna þrefaldast á árunum 2008 til 2017.

Í ályktun samtakanna segir einnig, „Jafnframt felur þetta í sér alvarlega aðdróttun um að íslenskir geðlæknar og sálfræðingar hafi um árabil stundað kerfisbundið fúsk við greiningar á ADHD og læknisfræðilegar ráðleggingar þeim tengdum.“

Þessu hafnar stjórn ADHD samtakanna og bendir á að greiningar á ADHD og úrræði þeim tengd, byggi á leiðbeiningum Embættis Landlæknis og ekkert bendi til þess að staðan sé jafn alvarleg og starfsmenn landlæknis gefi nú í skyn.

Samtökin krefjast þess að embætti landlæknis dragi til baka dylgjur starfsmanna um ofgreiningar og ofnotkun lyfja vegna ADHD sem samtökin segja að sé til þess eins fallin að ala á fordómum í garð einstaklinga með ADHD.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×