Viðskipti innlent

Samherji teflir fram Eiríki í stjórn Haga 

Hörður Ægisson skrifar
Eiríkur S. Jóhannsson, stjórnarformaður Samherja.
Eiríkur S. Jóhannsson, stjórnarformaður Samherja.
Eiríkur S. Jóhannsson, stjórnarformaður Samherja, sækist eftir kjöri í stjórn Haga á hluthafafundi félagsins sem verður haldinn 18. janúar næstkomandi, samkvæmt heimildum Markaðarins. Frestur til að gefa kost á sér til setu í stjórn rann út síðastliðinn föstudag en Samherji, sem fer með 9,22 prósenta hlut í Högum, hafði óskað eftir því við stjórn félagsins að boðað yrði til hluthafafundar þar sem stjórnarkjör væri á dagskrá.

Þá mun Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir, aðaleigandi Fréttablaðsins, einnig tefla fram stjórnarmanni í kjörinu en félög í hennar eigu eiga um fimm prósenta hlut í Högum, stærsta smásölufyrirtæki landsins. Tillögur tilnefningarnefndar Haga um frambjóðendur til stjórnar Haga verða tilkynntar á föstudag.

Samkvæmt heimildum Markaðarins hyggst Kristín Friðgeirsdóttir, núverandi stjórnarformaður smásölurisans, ekki sækjast eftir endurkjöri í stjórn en hún hefur setið í stjórn Haga allt frá 2011. Hún vildi ekkert tjá sig um málið í samtali við Markaðinn þegar eftir því var leitað.

Samherji er stærsti einkafjárfestirinn í hluthafahópi Haga en sjávar­útvegsfyrirtækið eignaðist rúmlega fimm prósenta hlut í félaginu við samruna Haga og Olís sem kom til framkvæmda þann 30. nóvember í fyrra. Þá hefur félagið einnig gert framvirka samninga um kaup á 4,12 prósenta hlut í Högum til viðbótar. 

Í tilkynningu Haga til Kauphallarinnar á mánudag kom fram að stjórnendur félagsins hefðu lækkað af­- komu­spá fyrir yfirstandandi rekstrar­ár um 300 til 400 milljónir króna, eða sem nemur sex til átta prósentum. Ný afkomuspá Haga gerir ráð fyrir að EBITDA félagsins – hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta – verði 4.600 til 4.700 milljónir króna á yfirstandandi rekstrarári, sem hófst í mars síðastliðnum.

Hlutabréfaverð Haga lækkaði um rúmlega sex prósent í kjölfar afkomuviðvörunarinnar og stóð gengi bréfa félagsins í 42,3 krónum á hlut við lokun markaða í gær.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×