Innlent

Skerðing vegna búsetu leiðrétt

Sveinn Arnarsson skrifar
ÖBÍ berst gegn skerðingum af ýmsu tagi.
ÖBÍ berst gegn skerðingum af ýmsu tagi. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK
 „Í þessu minnisblaði tekur velferðarráðuneytið algjörlega undir með umboðsmanni Alþingis og telur að Tryggingastofnun hafi ekki reiknað þessar skerðingar samkvæmt lögum. Ráðuneytið ætlar að beina þeim tilmælum til Tryggingastofnunar að endurreikna þetta allt saman,“ segir Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar Alþingis.

Nefndin ræddi í síðustu viku mál einstaklinga sem hafa fengið skertar lífeyrisgreiðslur vegna fyrri búsetu erlendis. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tók málið upp í september og óskaði eftir viðbrögðum velferðarráðuneytisins. Málið var í framhaldinu sent til velferðarnefndar.

Í áliti umboðsmanns Alþingis frá í sumar kemur fram að Tryggingastofnun hafi reiknað búsetuhlutfall með röngum hætti. Í fyrra fengu um þrjú þúsund manns skertar lífeyrisgreiðslur vegna fyrri búsetu erlendis.

Í minnisblaði ráðuneytisins segir að stjórnvöld muni taka mið af þeim sjónarmiðum umboðsmanns.

Halldóra segir að til standi að endurgreiða þeim sem hlotið hafi skerðingar sem ekki standist lög.

„Við erum búin að fá vilyrði frá ráðuneytinu um að það verði gengið eins fljótt og mögulegt er í þetta mál. Þar af leiðandi teljum við ekki ástæðu til að funda frekar um þetta sérstaklega en við munum fylgjast vel með að þetta verði framkvæmt. Ef ekkert hefur gerst í þessu á nýju ári munum við kalla ráðuneytið til okkar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×