Erlent

Lööf hyggst greiða atkvæði gegn Löfven

Atli Ísleifsson skrifar
Annie Lööf er formaður sænska Miðflokksins.
Annie Lööf er formaður sænska Miðflokksins. Getty/MICHAEL CAMPANELLA
Annie Lööf, formaður sænska Miðflokksins, segir að þingmenn flokksins muni greiða atkvæði gegn Stefan Löfven, starfandi forsætisráðherra og formanni Jafnaðarmannaflokksins, sem nýr forsætisráðherra í atkvæðagreiðslu á þinginu.

Lööf segir að Jafnaðarmannaflokkurinn hafi ekki sýnt nægan vilja til málamiðlunar í viðræðum um mögulegt stjórnarsamstarf. Þá hafi Jafnaðarmenn reynst tregir til að láta af samstarfi við Vinstriflokkinn til að hægt sé að finna grundvöll til samstarfs.

Alger pattstaða er á sænska þinginu þar sem ekkert hefur gengið að ná saman um nýja stjórn sem njóti stuðnings meirihluta þingsins.

Óformleg samtöl

Andreas Norlén, forseti sænska þingsins, segir að hann muni veita flokkunum nokkra daga til að melta þá stöðu sem nú er uppi. Hann muni á þeim tíma eiga óformleg samtöl við flokksleiðtoga. Hann hafði áður tilnefnt Löfven sem nýjan forsætisráðherra, en eftir viðræður síðustu daga hefur Miðflokkurinn, sem er einn borgaralegu flokkanna, sagst munu greiða atkvæði gegn Löfven eftir að hafa áður opnað á samstarf.

Lööf hefur lagt mikla áherslu á að ná saman um nýja stjórn flokka úr báðum blokkum, til að koma í veg fyrir að Svíþjóðardemókratar komist til áhrifa.

Kosningar fóru fram í Svíþjóð þann 9. september síðastliðinn og hefur ekkert gengið að mynda nýja stjórn. Bæði þeim Ulf Kristersson, formanni hægriflokksins Moderaterna, og Stefan Löfven hefur mistekist að mynda starfhæfa stjórn. Hið sama á við um Lööf sem skilaði sínu stjórnarmyndunarumboði 22. nóvember.

Snúin staða

Afar snúin staða er á sænska þinginu eftir kosningarnar sem fram fóru 9. september síðastliðinn. Rauðgrænu flokkarnir náðu 144 þingsætum, borgaralegu flokkarnir 143 og Svíþjóðardemókratar 62. 

Takist sænska þinginu ekki að samþykkja tillögu þingforseta um nýjan forsætisráðherra í fjórum tilraunum þarf að boða til nýrra kosninga. Í byrjun nóvember hafnaði þingið tillögu þingforseta um Kristersson sem nýr forsætisráðherra. Hann sagðist vilja mynda minnihlutastjórn Moderaterna og Kristilegra demókrata.


Tengdar fréttir

Annie Lööf gefst upp

Formaður sænska Miðflokksins segist hafa gefist upp í tilraunum sínum að mynda nýja ríkisstjórn sem nýtur stuðnings meirihluta sænska þingsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×