Viðskipti innlent

Starfsfólk Goodyear í Venesúela fær tíu hjólbarða við starfslok

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Góðir hjólbarðar eru þarfaþing í Venesúela.
Góðir hjólbarðar eru þarfaþing í Venesúela. Getty/Daniel Acker
Hjólbarðaframleiðandinn Goodyear tilkynnti í gær að hann hyggðist loka verksmiðjum sínum í Venesúela vegna bágrar stöðu efnahagsmála í landinu. Verið er að ganga frá starsflokum við allt starfsfólk fyrirtækisins en meðal þess sem starfslokasamningur þess mun kveða á um eru tíu hjólbarðar.

Djúp efnahagskreppa hefur leikið Venesúela grátt frá árinu 2014 og hefur verið langvarandi skortur á hvers kyns nauðsynjavörum. Breska ríkisútvarpið tiltekur að fyrir vikið séu hágæðahjólbarðar í miklum metum á svarta markaðnum þar í

landi. Hjólbarðarnir tíu sem starfsfólk Goodyear fær eftir uppsögnina séu því ágætis launauppbót á erfiðum tímum.

Í yfirlýsingu sem Goodyear sendi frá sér í gær segir að stjórnendum fyrirtækisins þyki það þungbær ákvörðun að þurfa að stöðva starfsemina í Venesúela. Þrátt fyrir heiðarlegar hagræðingartilraunir hafi það þó reynst ómögulegt að halda verksmiðjunum opnum, sökum fyrrnefndrar kreppu og viðskiptaþvingana sem Bandaríkin hafa lagt á Venesúela. Stjórnvöld í Washington hafa sakað Nicolás Maduro, forseta Venesúela, og stjórn hans um margvísleg mannréttindabrot, spillingu og fíkniefnaútflutning. Maduro þvertekur fyrir allt slíkt.

Í yfirlýsingu Goodyear kemur jafnframt fram að verið sé að ganga frá starfsflokasamningum við starfsmenn - sem munu meðal annars kveða á um fyrrnefnda hjólbarða.

Goodyear bætist í hóp alþjóðlegra fyrirtækja sem sagt hafa skilið við Venesúela á síðastliðnum 4 árum; eins og Kellogg, Kimberley Clark og ýmis flugfélög. Talið er að rúmlega 2,3 milljónir Venesúelamanna hafi yfirgefið landið á sama tímabili.




Tengdar fréttir

Kellogg flýr frá Venesúela

Bandaríski morgunkornsframleiðandinn Kellogg hefur ákveðið að stöðva framleiðslu sína í Venesúela sökum bágs efnahagsástands landsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×