Innlent

Ásmundi blöskrar skóleysi Björns Levís

Birgir Olgeirsson skrifar
Ásmundur Friðriksson er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ásmundur Friðriksson er þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Vísir/Hanna
Ásmundur Friðriksson segir Björn Leví Gunnarsson sýna Alþingi mikla vanvirðingu með því að ganga um þingsalinn á sokkaleistunum. Þetta sagði þingmaður Sjálfstæðisflokksins um þingmann Pírata í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni fyrr í dag.

Ásmundur kvaddi sér hljóðs á Alþingi í dag þar sem hann gerði að umræðuefni klæðnað þingmanna í þingsal. Sagði hann það óviðeigandi af þingmönnum að klæðast gallabuxum við þingstörf og velti fyrir sér hvers vegna bindisskyldan var afnumin þingveturinn 2009 til 2013.

Konurnar oftast huggulega klæddar

Í Reykjavík síðdegis sagði hann karla sem sitja á þingi eiga að lágmarki að vera í jakkafötum og skyrtu. Klæðnaður kvenna sé ögn frjálslegir en Ásmundur sagði að sér hugnaðist ekki að þær væru í gallabuxum í þinginu.

„Þær eru oftast mjög huggulega klæddar en stundum í gallabuxum,“ sagði Ásmundur á Bylgjunni.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.FBL/ERNIR
Hann sagði einn þingmann ganga um á sokkaleistunum en það sé Björn Leví Gunnarsson.

Ásmundur sagðist telja að ekki væri kveðið á um það í reglum Alþingis að þingmenn ættu að vera klæddir í skó við þingstörf. „Menn hafa mögulega ekki haft hugmyndaflug til að láta sér detta það til hugar einhver myndi sýna þinginu þá vanvirðingu að vera á sokkaleistunum,“ sagði Ásmundur.



Sagði nei við skrifstofustjórann

„Er hann í skónum heima hjá sér? Ég er hvergi innandyra í skóm,“ segir Björn Leví í samtali við Vísi um málið.



Björn segist vera ögn heitfengur og svitni óþarflega mikið ef hann er lengi í skónum.

„Ég er að spara fólki lykt og svoleiðis,“ segir Björn.

Hann segist fáar athugasemdir hafa fengið vegna skóleysisins á Alþingi. Oftast sé honum hrósað fyrir fallega sokka. Skrifstofustjóri Alþingis hafi þó eitt sinn spurt hann hvort hann gæti verið í skóm?

„Ég sagði bara; nei!“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×