Innlent

Inga Sæland veifaði peningabúnti í pontu Alþingis

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, veifaði peningabúnti í pontu Alþingis í dag og tilkynnti að hún ætlaði að gefa peninginn, jólabónusinn sinn, til góðgerðarmála.

Skoraði hún á aðra þingmenn að gera slíkt hið sama en eins og fjallað hefur verið nemur upphæðin 181 þúsund krónum. Bæði er um jólabónus og orlofsuppbót þingmanna að ræða en ýmsum blöskrar hversu há þessi upphæð er eins og Vísir greindi frá á dögunum.

 

„Í morgun hafði samband við mig kona sem er að vinna hjá góðgerðarsamtökum. Það voru 120 einstaklingar sem komu til hennar í gær og þáðu gjafakort, Bónuskort. Hún sagði að það væri sárara en tárum tæki í rauninni hvað eymdin hefði vaxið ótrúlega mikið á árinu 2018,“ sagði Inga Sæland og hélt áfram.

„Við fengum 181.000 krónur í jólabónus, við þingmenn. Ég veit hvað ég ætla að gefa í jólagjöf. Ég skal sýna ykkur það, hæstvirtur forseti.“

Hér tók Inga peningana úr vasana og sýndi þá í ræðustól.

„Ég tók út jólabónusinn minn og ég skora á alla að gera slíkt hið sama því að við höfum efni á því að kaupa gjafakort fyrir fátækt fólk og rétta það til góðgerðarsamtaka og ganga á undan með góðu fordæmi. Gleðileg jól,“ sagði Inga og heyra mátti þingmenn taka undir með henni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×