Innlent

Var í afneitun þangað til það var of seint

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Anna María Þorvaldsdóttir.
Anna María Þorvaldsdóttir. Fréttablaðið/Sigtryggur
Á Þorláksmessu fyrir tveimur árum átti Anna María Þorvaldsdóttir að mæta til vinnu en gat það ekki. Hún vaknaði og það var eins og það hefði eitthvað brostið innra með henni. Hún átti bágt með að tjá sig og grét stöðugt.

Anna María tekur á móti blaðamanni í snotru skrifstofuhúsnæði í Engihjalla. Nú eru tvö ár liðin frá því að hún brotnaði niður. Hún er í nýrri vinnu og lífsstíllinn er breyttur. Bataferlið hefur verið langt og stendur enn yfir. „Minnið er ekki alveg komið, er þó miklu betra,“ segir hún og brosir. Anna María segir sögu sína af líkamlegri og andlegri örmögnun. Kulnun og forsagan sé víti til varnaðar. „Ég var nefnilega orðin veik miklu fyrr. Ástvinir mínir og heimilislæknirinn voru löngu búin að sjá í hvað stefndi en ég hlustaði ekki, ég var í afneitun þangað til það var of seint,“ segir Anna María.

„Kröfur til fólks í þjóðfélaginu eru orðnar of miklar. Þær eru sérstaklega miklar til kvenna. Nú fyrir jólin hugsa ég að margir séu að keyra sig út. Sækja viðburði, baka ótal kökusortir, halda gott heimili. Það eimir enn af því viðhorfi að þetta sé hlutverk kvenna meira en karla. Þó held ég að allir séu undir álagi í desember. Þetta er erfiður mánuður og væntingar fólks miklar. Við vinnum meira en áður, hvert heimili þarf tvær innkomur til að komast af. Við erum líka að eldast og því eiga margir aldraða foreldra sem þeir annast. Við hugsum líka betur um börnin okkar en áður, sinnum þeim meira því það er svo miklu meira vitað um þýðingu þess. Þau eru með alls kyns greiningar. Og svo erum við í ræktinni og viljum taka þátt í félagslífi og ofan á þetta allt saman erum við sítengd þó að við séum búin að stimpla okkur út. Bæði í starfi og einkalífi vegna samfélagsmiðla,“ segir Anna María.

„Ég var þangað til skellurinn kom alltaf að græja og gera. Gerði það með bros á vör. Ég, eins og margir aðrir Íslendingar, er alin upp við það að dugnaður og það að harka af sér sé dyggð. Fyrst gerir þú allt sem þarf að gera, svo hvílir þú þig,“ segir Anna María um rót vandans.

„Ég hugsa að veikindin hafi í raun byrjað um leið og mamma dó. Árið 2013. Ég bjó erlendis á þessum tíma, fjarlægðin gerði það að verkum að ég fór að þjást af djúpstæðu samviskubiti. Ég var ekki að gera nóg. Pabbi var nýverið greindur með Alzheimer en eftir fráfall mömmu hrundi heilsa hans. Ég flyt heim og fer að taka þátt í umönnun pabba. Fyrstu einkenni mín gera vart við sig árið 2014 og eru gleymska,“ segir Anna María sem segist hafa fundið til ótta. Enda hafi faðir hennar nýverið greindur með Alzheimer. Læknirinn sagði þá við mig að það væri ekkert að mér nema að ég væri undir miklu álagi. Hann átti eftir að segja þetta nokkrum sinnum við mig en ég meðtók það aldrei,“ segir Anna María.

„Það er síðan mikill vendipunktur í mínu lífi þegar ég tek að mér mjög krefjandi starf. Ég fer úr því að vera mannauðsstjóri með 50 starfsmenn í 350 á einu ári. Við vorum reyndar fleiri með þennan stóra hóp. Vinnudagarnir fóru að lengjast. Fyrst fór ég að mæta fyrr en hætta klukkan fimm. Svo færðust mörkin sífellt til og ég var æ oftar komin heim klukkan sex og farin að taka vinnu með mér heim á kvöldin. Um leið og allir voru búnir að borða var ég búin að opna tölvupóstinn og farin aftur að vinna.“

Líf Önnu Maríu og líðan tók miklum breytingum. Hún hætti að stunda reglulega hreyfingu og fór að borða óhollan mat. Hún fann fyrir skapsveiflum sem fylltu hana ótta og minnisleysið hélt áfram að aukast. „Sumarið áður fann ég fyrir skrýtnum skapsveiflum. Ég brast stundum í grát eða reiddist að óþörfu, varð neikvæð. Ég sem hafði alltaf verið svo glöð. Þetta var bara ekki ég!

Ég fékk ekki jákvæða endurgjöf í vinnunni frá framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Þá leitaði ég út fyrir vinnustaðinn eftir henni og stofnaði félagasamtökin ICF. Að stofna svona félag er meiriháttar mál en þarna hafði ég samt tilgang og ég fékk jákvæða endurgjöf. Þarna fann ég að ég var einhvers virði,“ segir Anna María sem hélt áfram að hlaða á sig verkefnum. „Ofan á allt annað álag vorum við með skiptinema á heimilinu sem kallaði mig súpermömmu. Ég hlustaði ekki á neinar viðvaranir. Maðurinn minn var til dæmis alveg með á hreinu hvað var í gangi. En mér fannst ég eiginlega bara dugleg og töff og var í mikilli afneitun.

Og á Þorláksmessu vakna ég og er bara tilfinningalega flöt. Tankurinn búinn. Það var bara ekkert eftir. Ég vaknaði og fór bara strax að gráta. Ég grét svo stanslaust allan daginn. Hringdi í framkvæmdastjórann og gat varla gert mig skiljanlega fyrir ekka. Ég fékk veikindaleyfi og ætlaði bara að vera í stuttan tíma að jafna mig. Á milli jóla og nýárs. Það átti ekki eftir að ganga. Því í mars á næsta ári þá sit ég í vinnu við skrifborðið og bara brest í grát. Niðurbrotið var algjört. Og það var þá sem ég leitaði mér hjálpar. Í raun og veru alltof seint. Ég fann til mikillar skömmustutilfinningar,“ segir hún.

„Ég hélt að það væri ekki hægt að finna svona mikinn andlegan og líkamlegan sársauka. Það var eins og hver taug væri þanin. Eins og ég væri hengd upp á þráð. Ég hét mér því að ég skyldi aldrei aftur láta þetta fara svona. Þegar ég lít til baka þá sé ég þetta skýrt. Þetta snýst um að setja sér mörk. Taka ábyrgð á heilsu sinni og vellíðan. Ég gerði það ekki. Kenndi aðstæðum um, yfirmanninum, fyrirtækinu. Álaginu. Það var alltaf einhverjum öðrum að kenna og ég var bara að bregðast við. En nú sé ég að það var ég sem kom mér í þessar aðstæður og ég sem ber ábyrgð. Á mér. Þegar ég var búin að átta mig á þessu þá fékk ég hjálp. Frá fjölskyldu og vinum og síðast en ekki síst, frá mér sjálfri.

Ég endurskoðaði líf mitt. Hætti í starfinu sem mér leið illa í. Efldi styrkleika mína. Ég fór að fara út að ganga og er nú fallin fyrir því að ganga á fjöll. Það gefur mér orku og gleði. Ég syndi líka og hef voðalega gaman af blómum og næri mig með því líka. Ég er ekki lengur andlega fjarverandi. Bataferlið er langt en mjög gefandi. En þetta hefði getað farið miklu verr. Því samviskusemin var að drepa mig.“

Og ráð Önnu Maríu til þeirra sem lesa þetta og glíma við streitu: „Hlustaðu á ástvini þína, hvað eru þeir að segja þér. Og staldraðu við. Það er lífsins nauðsyn að gæta að því að hlúa að sér og styrkleikum sínum.“ – kbg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×