Erlent

Enn leitað að árásarmanninum og þriðji látinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Leitað í bílum á landamærum Frakklands og Þýskalands.
Leitað í bílum á landamærum Frakklands og Þýskalands. AP/Sebastian Gollnow
Lögreglan í Frakklandi leitar enn að Chérif Chekatt, sem grunaður er um að hafa skotið minnst þrjá til bana í árás á jólamarkaði í Strassborg á þriðjudaginn. Tveir létust í árásinni sjálfri og sá þriðji lést á sjúkrahúsi í dag. Tólf særðust í árásinni. Fjórir aðilar hafa verið handteknir en hundruð lögregluþjóna taka þátt í leitinni að Chekatt.

Hann var vopnaður skammbyssu og hnífi þegar hann hóf skothríðina. Talið er að Chekatt hafi verið særður af hermönnum áður en hann flúði af vettvangi. Einn hermaður særðist lítillega þegar hermenn skiptust á skotum við hann.

Fyrr á þriðjudaginn, um morguninn, leitaði lögregla á heimili Chekatt vegna þess að hann var eftirlýstur vegna annars glæps. Þegar lögreglan leitaði á heimili hans fannst handsprengja, riffill og hnífar, samkvæmt France24.



Hann hefur lengi verið kunnugur lögreglu og hefur margsinnis verið handtekinn og dæmdur 27 sinnum fyrir glæpi í Frakklandi, Þýskalandi og Sviss. Þá var hann á lista yfirvalda yfir aðila sem ógn stafar af og er hann sagður hafa hneigst til róttækni þegar hann sat í fangelsi fyrir rán.

Lögreglan birti í gær myndi af Chekatt og óskaði aðstoðar almennings við að finna hann.


Tengdar fréttir

Birta nafn og mynd af hinum grunaða í Strassborg

Lögregla í Frakklandi hefur óskað eftir aðstoð almennings við að hafa uppi á manninum sem skaut og drap tvo og særði fleiri á jólamarkaði í frönsku borginni Strassborg í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×