Körfubolti

Ný skemmtileg tilraun frá Pálmari: „Tölum markvisst um íþróttir kvenna af virðingu við alla drengi sem æfa íþróttir“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pálmar Ragnarsson með einum af strákunum sínum í Val.
Pálmar Ragnarsson með einum af strákunum sínum í Val. Skjámynd/Fésbókin
Pálmar Ragnarsson vinnur við það að þjálfa körfuboltakrakka en hann er ekki bara að undirbúa þau undir körfuboltaleiki heldur einnig undir lífið sjálft.

Undanfarin ár hefur Pálmar leyft okkur að fylgjast með skemmtilegum tilraunum sínum þar sem hann reynir meðal annars að breyta hugarfari stráka til íþrótta kvenna.

Pálmar leyfir öllum að sjá inn á samfélagsmiðlum sínum hvernig nýjasta tilraun hans kom út.  Pálmar athugaði að þessu sinni hvernig bregðast ungir körfuboltadrengir við þegar þeir fá körfuboltaspjald með mynd af konu?

„Bregðast þeir öðruvísi við en þegar þeir fá mynd af karli eins og þeir eru vanir, eða finnst þeim þetta vera jafn skemmtilegt?,“ spyr Pálmar.

Útkoman er mjög skemmtileg og Pálmar mun örugglega halda áfram að kenna strákunum og reyna að hafa jákvæð áhrif á þeirra hugarfar á sama tíma og hann gerir þá að betri körfuboltamönnum.

„Við getum haft áhrif á hugarfar ungra drengja til frambúðar einfaldlega með því hvernig við tölum um hlutina. Tölum markvisst um íþróttir kvenna af virðingu við ALLA drengi sem æfa íþróttir, bæði börn og unglinga. Í kjölfarið mun hugarfar breytast og jafnvel smitast út í fleiri kima samfélagsins. Áfram jafnrétti í íþróttum,“ skrifar Pálmar og á mikið hrós skilið fyrir.

Hér fyrir neðan má sjá myndbandið með tilraun Pálmars.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×