Erlent

Sömdu um vopnahlé í Jemen

Atli Ísleifsson skrifar
Margot Wallström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, Khaled al-Yamani, utanríkisráðherra Jemens, Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, og Mohammed Abdelsalam, aðalsamningamaður Húta, í Svíþjóð fyrr í dag.
Margot Wallström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, Khaled al-Yamani, utanríkisráðherra Jemens, Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, og Mohammed Abdelsalam, aðalsamningamaður Húta, í Svíþjóð fyrr í dag. EPA
Stríðandi fylkingar hafa komist að samkomulagi um vopnahlé í borginni Hudaydah í Jemen. Fulltrúar stjórnvalda og uppreisnarmanna Húta hafa undanfarnar daga átt í friðarviðræðum í Svíþjóð fyrir milligöngu Sameinuðu þjóðanna.

Borgin Hudaydah er ein helsta lífæð landsmanna en megnið af hjálpargögnum sem koma til Jemen fara um höfnina þar. 

Stríðið í Jemen hefur geisað í um fjögur ár og hafa landsmenn glímt við hungursneyð og látlaus átök.

Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, fagnaði fréttunum sem bárust í dag og sagðist vona að það væri upphafið að því að binda enda á stríðsátökin í landinu.

Vel á sjöunda þúsund manna hið minnsta hafa látið lífið í átökunum á síðustu árum og um 10 þúsund særst. Mörg þúsund manns til viðbótar hafa látið lífið vegna vannæringar og sjúkdóma sem hefði hægt að koma í veg fyrir.

Fjögurra ára átök

Átök í landinu hófust í byrjun árs 2015 þegar Hútar náðu stjórn á stórum landsvæðum í vesturhluta landsins sem neyddi forsetann Abdrabbuh Mansour Hadi til að flýja land.

Sádar, Sameinuðu arabísku furstadæmin og sjö önnur arabaríki hafa stutt við bakið á stjórnvöldum í landinu, en þau líta á Húta sem nána bandamenn íranskra stjórnvalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×