Erlent

Mannshjarta í reiðileysi sneri vélinni við

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hjartað flaug undir merkjum flugfélagsins Southwest Airlines.
Hjartað flaug undir merkjum flugfélagsins Southwest Airlines. Getty/Bruce Bennett
Flugvél bandaríska flugfélagsins Southwest Airlines var snúið við á sunnudag eftir að mannshjarta, sem gleymst hafði að ferja úr vélinni á flugvellinum í Seattle, fannst um borð.

Fyrst var greint frá málinu í gær en samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu hafði hjartanu verið flogið frá Kaliforníu til Seattle, þar sem átti að flytja það á spítala í borginni. Hjartað var hins vegar aldrei ferjað úr flugvélinni og var enn um borð þegar flugvélin tók á loft í næsta flug, til borgarinnar Dallas í Texas.

Vélinni var flogið í um þrjár klukkustundir áður en það uppgötvaðist að hjartað væri um borð. Flugstjórinn neyddist því til að snúa við til Seattle og samkvæmt frétt BBC var farþegum nokkuð brugðið þegar tilkynnt var um ástæðu viðsnúningsins.

Bandaríska dagblaðið The Seattle Times greinir frá því að hjartað hafi komist heilu og höldnu á sjúkrahúsið innan hins lífvænlega tímaramma. Líffærið var ekki ætlað sérstökum sjúklingi til ígræðslu heldur átti að taka af því hjartaloku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×