Innlent

Innan við helmingur giftir sig hjá Þjóðkirkjunni

Kjartan Kjartansson skrifar
Mun færri láta Þjóðkirkjuna gefa sig saman nún en í kringum aldamótin.
Mun færri láta Þjóðkirkjuna gefa sig saman nún en í kringum aldamótin. Vísir/Vilhelm
Hlutur Þjóðkirkjunnar í hjónavígslum hefur minnkað töluvert á þessari öld. Á þessu ári er hlutfall þeirra sem lætur kirkjuna gefa sig saman kominn niður fyrir 50%. Í nóvember gifti þriðjungur þeirra sem gengu hjúskap sig hjá Þjóðkirkjunni.

Í frétt á vef Þjóðskrár Íslands kemur fram að hlutur Þjóðkirkjunnar í hjónavígslum hafi verið rúmlega 71% um aldamótin er nú innan við helmingur. Á sama tíma hefur hjónavígslum hjá sýslumanni fjölgað um 13% og hjá öðrum trúfélögum um 7%. Önnur trú- og lífsskoðunarfélög en Þjóðkirkjan gefa nú rúmlega 15,5% para saman.

Í nóvember stofnuðu 242 einstaklingar til hjúskapar. Af þeim gerðu 50,4% það hjá sýslumanni en 33,1% hjá Þjóðkirkjunni. Rúm 14% létu pússa sig saman hjá öðrum félögum.

Á sama tíma skildu 119 einstaklingar. Af þeim voru 118 lögskilnaðir framkvæmdir hjá sýslumanni og einn fyrir dómi. Alls hafa 1.178 einstaklingar skilið það sem af er ári, borið saman við 1.394 á öllu síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×