Körfubolti

Arnar um brotthvarf Jones: Góður drengur en ákveðið að fara í breytingar

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Arnar á hliðarlínunni í kvöld
Arnar á hliðarlínunni í kvöld vísir/vilhelm
Paul Anthony Jones hefur verið látinn fara frá Stjörnunni og spilar ekki meira með Garðbæingum í Domino‘s deild karla. Þetta staðfesti Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir leik Stjörnunnar og Hauka í Mathús Garðabæjarhöllinni í kvöld.

„Já, hann er því miður farinn frá félaginu. Mjög leiðinlegt, þetta er góður drengur og við vorum ánægðir með hans framlag,“ sagði Arnar. „En þegar það var ákveðið að ráðast í breytingar þá því miður varð hann fyrir valinu en ég þakka honum fyrir vel unnin störf fyrir félagið, við vorum mjög ánægðir með hann.“

Stjarnan vann leikinn með 100 stigum gegn 89. Fyrirfram hefði verið hægt að búast við nokkuð auðveldum sigri Stjörnunnar en svo varð ekki raunin.

„Þetta er búin að vera strembin vika en það er gott að við náðum að klára þennan fyrri part með sigri, það var mikilvægt,“ sagði Arnar. Stjarnan er nú komin með 14 stig, fjórum minna en toppliðin sem eiga þó leik til góða.

„Við gerðum nóg. Við þurftum á sigri í dag og ég var feginn að hann hafðist, var eiginlega alveg sama hvernig hann myndi koma.“

„Við komum ákafir út í þriðja leikhluta og breyttum aðeins því sem við vorum að gera. Notuðum aðeins meiri orku.“

Síðasta spurningin varð að sjálfsögðu að vera út í atvikið þegar Arnar gekk inn á völlinn í síðasta heimaleik gegn KR, en Arnar skoraði á blaðamenn að halda áfram að spyrja sig út allt árið, hann myndi aldrei tjá sig um atvikið.

„Gleðileg jól og farsælt komandi ár,“ sagði Arnar og gekk í burtu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×