Svíar eru komnir á blað á EM í handbolta eftir eins marks sigur á Serbum. Rússar eru með fullt hús stiga eftir tvær umferðir.
Svíar töpuðu á dramatískan hátt fyrir Dönum í fyrstu umferðinni í A-riðli á meðan Serbar unnu Pólverja.
Serbneska liðið byrjaði leikinn betur og var með yfirhöndina í fyrri hálfleik. Munurinn varð mest fjögur mörk en Svíar náðu að laga stöðuna og munaði tveimur mörkum, 11-13, í hálfleik.
Svíar byrjuðu seinni hálfleikinn á 3-0 kafla og tóku forystuna. Eftir það var leikurinn í járnum út allan seinni hálfleikinn.
Jelena Lavko jafnaði í 21-21 þegar 30 sekúndur lifðu af leiknum og Svíar fengu tækifæri á að taka sigurinn. Jenny Alm nýtti tækifærið og skoraði sigurmarkið á loka sekúndunum.
Í B-riðli eru Rússar eina liðið með fullt hús á toppnum eftir eins marks sigur á Svartfellingum.
Svartfellingar byrjuðu leikinn mun betur en Rússar náðu að vinna sig inn í hann aftur. Þegar flautað var í hálfleik var staðan 13-15.
Svartfellingar héldu yfirhöndinni allt fram á loka mínúturnar þegar Marina Sudakova kom Rússum yfir á 58. mínútu. Durdina Jaukovic jafnaði metin að nýju en Sudakova vildi fá bæði stigin og skoraði sigurmarkið, lokastaðan 24-23.
