Annar ákærður, Matthías Jón Karlsson, óskaði sömuleiðis eftir því að breyta afstöðu sinni. Líkt og Sindri Þór viðurkennir hann að hafa brotist inn í gagnaver Advania. Hann sver þó af sér að hafa undirbúið, lagt á ráðin og skipulagt innbrotið með þeim Sindra Þór og Viktori Inga Jónassyni sem einnig er ákærður í sama lið.
Þremenningarnir eru á meðal sjö ákærðra í málinu sem er eitt stærsta þjófnaðarmáli Íslandssögunnar. Varðar málið þjófnað úr gangaverum í Reykjanesbæ og Borgarnesi í desember í fyrra og janúar síðastliðnum. Geta brotin varðað allt að sex ára fangelsi samkvæmt hegningarlögum. Mennirnir huldu flestir höfuð sín í morgun þegar þeir mættu í dómsal. Þeir neita allir sök.
Greiddi tryggingu og flutti úr landi
Á meðal ákærðu er Sindri Þór en gefin var út alþjóðleg handtökuskipun á hendur honum eftir að hann fór af landi brott eftir að hafa setið í gæsluvarðhaldi í tólf vikur vegna rannsóknar málsins. Hann var handtekinn í Amsterdam nokkrum dögum síðar og færður heim til Íslands þar sem hann var úrskurðaður í farbann.Sindri greiddi síðan 2,5 milljónir króna til að losna úr farbanni og flutti til Spánar en lofaði að vera viðstaddur aðalmeðferð málsins. Hann er mættur í dómsal í dag ásamt sakborningunum sex. Þeirra á meðal Hafþór Logi Hlynsson, sömuleiðis búsettur á Spáni, en Hafþór hlaut á dögunum tólf mánaða fangelsisdóm fyrir peningaþvætti.
Mennirnir eru ákærðir fyrir aðild að innbrotum í fjögur gagnaver þrjár nætur í desember í fyrra og janúar síðastliðnum og tilraunir til innbrota í tvö önnur.
350 Bitcoin-tölvur
Í ákærunni segir að þjófarnir hafi stolið 2.250 tölvuíhlutum, þar á meðal 350 bitcoin-tölvum, hátt í 500 aflgjöfum og spennum, yfir 800 skjákortum, 120 móðurborðum og jafnmörgum örgjörvum. Andvirði búnaðarins sé um 96 milljónir króna en tjón fyrirtækjanna er talið nema 135 milljónum. Búnaðurinn er enn ófundinn.Á meðal ákærðu er fyrrverandi öryggisvörður sem er sagður hafa látið þjófana fá öryggisupplýsingar um gagnaver Advania ásamt fatnaði merktum fyrirtækinu sem brotist var inn í.
Vísir mun fylgjast með gangi mála í aðalmeðferðinni í dag en henni verður svo framhaldið í vikunni. Reiknað er með því að hún taki þrjá daga.
*Uppfært
Í fyrri útgáfu fréttar voru bæði Sindri og Matthías sagðir hafa viðurkennt að hafa brotist inn í gagnaverið í Borgarnesi. Hið rétt er að Sindri viðurkenndi að hafa farið inn í gagnaverið í Borgarnesi, ekki Matthías. Báðir viðurkenndu að hafa farið inn í gagnaver Advania.