Viðskipti innlent

Wuxi NextCODE fær 25 milljarða fjármögnun frá alþjóðlegum fjárfestum

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Vísindamaður að störfum.
Vísindamaður að störfum. Getty/Josh Reynolds
Wuxi NextCODE, sem meðal annars var stofnað af Hannesi Smárasyni ásamt fleirum og er með skrifstofur á Íslandi, hefur lokið 200 milljón dollara fjármögnun. Það jafngildir 24,5 milljörðum króna. Þetta kemur fram í erlendum fréttamiðlum.

Starfsemi WuXi NextCode lýtur að því að nota upplýsingar um erfðamengi til þess að uppgötva virkni ákveðinna gena. Fyrirtækið varð til þegar WuXi PharmaTech keypti íslenska lyfjafyrirtækið NextCode á 8,5 milljarða króna árið 2015.



Hannes Smárason.
Íslensk erfðagreining kom NextCode á fót til að selja sjúkdómsgreiningar til lækna og sjúkrahúsa í Bandaríkjunum.

Írski fjárfestingasjóðurinn Ireland Strategic Investment Fund leiddi ferlið og lagði til 70 milljónir dollara.

Sá sjóður var stærsti hluthafi Genomics Medicine Ireland sem Wuxi NextCODE keypti nýverið til að koma á fót höfuðstöðvum í Evrópu.

Á meðal annarra fjárfesta í þessari lotu má nefna Temasek og Sequoia Capital sem hafa lengi verið hluthafar í fyrirtækinu.

Fyrir um það bil ári sótti Wuxi NextCode 240 milljónir dollara í fjármögnun.

Temasek er einnig hluthafi í Alvogen og Alvotech sem er með höfuðstöðvar í Vatnsmýrinni.

Hann­es lét af störfum sem for­stjóri WuXi Nextcode í mars, rúmu ári eft­ir að hann tók við keflinu. Hann starfar áfram sem ráðgjafi hjá fyr­ir­tæk­inu. Frá því í mars hefur hann starfað sem ráðgjafi fyrir 6 Dimensions Capital sem fjárfestir í nýsköpun í heilbrigðisviði. Fyrirtækið varð til við samruna WuXi Healthcare Ventures og Frontline BioVentures.


Tengdar fréttir

Afdrif áhrifamanna í bankakerfinu

Bankastjórar, stórir hluthafar í bönkunum og aðrir áhrifamenn í fjármálalífinu hurfu margir hverjir úr sviðsljósinu í kjölfar fjármálahrunsins. Flestir þeirra hafa þó náð að fóta sig að nýju.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×