Körfubolti

Hagnaður af miðasölu á leik Vals og Blika til styrktar Útmeða

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Valsmenn láta gott af sér leiða
Valsmenn láta gott af sér leiða vísir/bára
Leikur Vals og Breiðabliks í Domino's deild karla á föstudaginn verður leikinn til styrktar átakinu Útmeða og mun allur hagnaður af miðasölu ganga til átaksins.

Útmeða er forvarnarverkefni Rauða krossins og Geðhjálpar og snýst um að hvetja fólk, með sérstakri áherslu á ungt fólk, til þess að tjá sig um andlega líðan og leita sér faglegrar aðstoðar þegar á þarf að halda.

Verkefnið er brýnt, m.a. vegna þess að sjálfsvíg eru algengasta dánarorsök ungra karlmanna á Íslandi og að mörg hundruð manns leita sér aðstoðar á heilsugæslum og sjúkrahúsum vegna sjálfsskaða.

Leikurinn er gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið og er um hreinræktaðan fallslag að ræða, liðin verma fallsætin tvö í Domino's deild karla og eru bæði með tvö stig eftir sjö leiki.

Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport á föstudaginn klukkan 18:30 en Valsmenn vilja hvetja sem flesta til þess að mæta í stúkuna og styðja þetta brýna verkefni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×