Innlent

Neyslurými opnar í Reykjavík á næsta ári

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Í neyslurými verður þeim sem sprauta sig í æð m.a. veittur aðgangur að hreinum sprautubúnaði og nálaskiptiþjónustu.
Í neyslurými verður þeim sem sprauta sig í æð m.a. veittur aðgangur að hreinum sprautubúnaði og nálaskiptiþjónustu.
Opnun neyslurýmis fyrir langt leidda vímuefnaneytendur er fyrirhuguð í Reykjavík á næsta ári. Í frumvarpi til fjárlaga eru 50 milljónir króna áætlaðar til verkefnisins. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra mun leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um ávana- og fíkniefni eftir áramót til að tryggja verkefninu fullnægjandi lagastoð, að því er segir í frétt á vef Stjórnarráðsins.

Heilbrigðisráðherra hóf vinnu fyrr á þessu ári við undirbúning að opnun neyslurýmis. Var það gert í samræmi við tillögur starfshóps um leiðir til að draga úr skaðlegum afleiðingum og margvíslegum hliðarverkunum vímuefnaneyslu.

„Markmiðið er að tryggja þessum einstaklingum öruggan vettvang, því eins og bent er á í skýrslu starfshópsins stunda þeir sem eiga við mestan vímuefnavanda að etja oft neyslu sína við hættulegar og heilsuspillandi aðstæður sem stuðla að auknum skaða fyrir viðkomandi, veikindum og jafnvel dauða,“ segir í fréttinni.

Sjá einnig: Brýn þörf fyrir neyslurými í Reykjavík

Með opnun neyslurýmis verður þeim sem sprauta sig í æð tryggður aðgangur að hreinum sprautubúnaði, nálaskiptiþjónustu og gjaldfrjálsri grunnheilbrigðisþjónustu. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar mun taka þátt í þessu verkefni og Rauði krossinn á Íslandi hefur fallist á að sinna þjónustunni. Velferðarráðuneytið mun fela Sjúkratryggingum Íslands umboð til samningsgerða um opnun neyslurýmis í samræmi við lög um sjúkratryggingar.  


Tengdar fréttir

Unnið að opnun neyslurýmis

Velferðarráðuneytið og Reykjavíkurborg hafa hafið vinnu við opnun neyslurýmis fyrir langt leidda vímuefnaneytendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×