Erlent

Yfirmaður leyniþjónustu rússneska hersins látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Igor Korobov gekk til liðs við rússneska herinn árið 1973 og starfaði í leyniþjónustunni frá árinu 1985.
Igor Korobov gekk til liðs við rússneska herinn árið 1973 og starfaði í leyniþjónustunni frá árinu 1985. AP
Yfirmaður leyniþjónustu rússneska hersins (GRU), hershöfðinginn Igor Korobov, er látinn, 62 ára að aldri. Þetta staðfesti rússneska varnarmálaráðuneytið í gærkvöldi.

Korobov tók við embættinu árið 2016 og er sagður hafa dáið í gær eftir glímu við „alvarlegan og langvinnan sjúkdóm“.

Leyniþjónustan GRU hefur talsvert ratað í fréttir síðustu misserin en hún hefur verið bendluð við taugaeitursárásina á njósnarann fyrrverandi, Sergei Skripal, og dóttur hans Júlíu, í breska bænum Salisbury fyrr á árinu.

Í frétt BBC segir að Korobov hafi sætt gagnrýni af hálfu rússneskra embættismanna þar sem árás rússnesku útsendaranna mistókst, en Skripal-feðginin lifðu af árásina.

Rannsókn breskra yfirvalda á árásinni leiddi í ljós að grunur beindist að þeim Alexander Mishkin og Anatoly Chepiga sem sagðir eru útsendarar GRU. Rússnesk stjórnvöld hafa hafnað ásökunum um að þeir Mishkin og Chepiga hafi ráðist á Skripal-feðginin að kröfu þeirra.

Korobov gekk til liðs við rússneska herinn árið 1973 og starfaði í leyniþjónustunni hans frá árinu 1985.


Tengdar fréttir

Annar Rússinn opinberaður sem ofursti í GRU

Annar mannanna sem grunaðir eru um að hafa reynt að myrða Sergei Skripal og dóttur hans Yuliu heitir raunverulega Anatoliy Chepiga og er ofursti í leyniþjónustu rússneska hersins, GRU.

Pútín kallar Skripal svikara og drullusokk

Vladimir Pútín, forseti Rússlands, er ósáttur við að einhverjir fjölmiðlar séu að reyna að gera einhvern mannréttindasinna úr rússneska njósnaranum fyrrverandi, Sergei Skripal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×