Körfubolti

Jón Arnór: Við erum greinilega svona heimskir körfuboltamenn

Árni Jóhannsson skrifar
Jón Arnór í leiknum í kvöld.
Jón Arnór í leiknum í kvöld. vísir/bára
Hann var stuttur í svörum Jón Arnór Stefánsson og virtist hann þurfa nokkur andartök til að ná saman hugsunum sínum þegar blaðamaður náði tali af honum eftir tap KR fyrir Grindavík fyrr í kvöld.

Hann var spurður að því hvað væri að gerast hjá KR og hvort það væri sama upp á teningnum og á móti Njarðvík og komu tvö stutt svör.

„Við erum eins og dauðyfli. Sama og var að gerast á móti Haukum,“ sagði Jón Arnór í samtali við Vísi í leikslok.

Hann var beðinn um útskýringu á því hvað væri að gerast.

„Við erum greinilega svona illa þjálfaðir eða svona vitlausir og heimskir körfuboltamenn eða eitthvað. Þetta eru grundvallaratriði sem við erum að klikka á.“

„Eins og maðurinn sem þú ert að dekka, hvort vill hann fara til vinstri eða hægri, hvað finnst honum þægilegt að gera. Hvað ætlar þú þá að þvinga hann út í?“

„Væntanlega það sem hann vill ekki gera og það er greinilega ekki verið að hamra þessu nægjanlega vel inn í hausinn á mönnum eða menn eru ekki að móttaka það sem verið er að segja við þá. Það er nákvæmlega þannig.“

Jón Arnór var svo spurður að því hvort að landsleikjahléið kæmi á góðum eða slæmum tíma fyrir KR.

„Það er ógeðslega slæmt. Það er leiðinlegt að fara með tap inn í það frí en við eigum að vera á betri stað núna en erum það ekki. Við verðum að nota fríið til að þjappa okkur saman og gera þetta betur.“

„Það þarf aðeins að skerpa á hlutunum og vera svona aðeins meiri karakter skilur þú, aðeins að horfa í spegilinn. Kannski erum við það ekki, kannski erum við bara að reyna að kreista fram eitthvað sem við erum ekki.“

„Við erum allavega komnir með mannskapinn til þess að gera eitthvað og við þurfum að fara að sýna eitthvað því annars skiptir þetta engu máli,“ sagði þessi mæti kappi að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×