Erlent

Munu greiða atkvæði um Löfven sem forsætisráðherra

Atli Ísleifsson skrifar
Stefan Löfven er formaður sænska Jafnaðarmannaflokksins.
Stefan Löfven er formaður sænska Jafnaðarmannaflokksins. Getty/Sean Gallup
Sænska þingið mun greiða atkvæði um Stefan Löfven, formann Jafnaðarmannaflokksins og starfandi forsætisráðherra, sem næsta forsætisráðherra landsins. Atkvæðagreiðslan fer fram mánudaginn 3. desember.

Frá þessu greindi þingforsetinn Andreas Norlén í morgun. Illa hefur gengið að mynda nýja ríkisstjórn eftir þingkosningarnar 9. september. Þingforsetinn segir nauðsynlegt að setja skýra tímaramma til að koma hlutunum af stað og hafi hann því ákveðið að tilnefna Löfven sem næsta forsætisráðherra.

Lööf skilaði umboðinu

Annie Lööf, formaður Miðflokksins, skilaði umboði sínu til stjórnarmyndunar í gær, en áður hafði bæði þeim Löfven og Ulf Kristersson, formanni hægriflokksins Moderaterna, mistekist að ná samkomulagi við aðra flokka um stjórn sem meirihluti þings myndi verja falli.

Afar snúin staða er á sænska þinginu eftir kosningarnar þar sem rauðgrænu flokkarnir náðu 144 þingsætum, borgaralegu flokkarnir 143 og Svíþjóðardemókratar 62. Takist sænska þinginu ekki að samþykkja tillögu þingforseta um nýjan forsætisráðherra í fjórum tilraunum þarf að boða til nýrra kosninga.



Hefur áður hafnað Löfven

Fyrr í mánuðinum greiddi þingið atkvæði um Kristersson sem nýjan forsætisráðherra, en var honum hafnað. Hafði hann sagst vilja mynda minnihlutastjórn Moderaterna og Kristilegra demókrata.

Atkvæðagreiðslan um Löfven verður önnur atkvæðagreiðslan í þinginu. Má búast við að á næstu dögum mun Löfven tilkynna hvaða stjórn hann sjái fyrir sér.

Þetta sama þing samþykkti vantraust á Löfven fljótlega eftir að þing kom saman eftir kosningar.


Tengdar fréttir

Annie Lööf gefst upp

Formaður sænska Miðflokksins segist hafa gefist upp í tilraunum sínum að mynda nýja ríkisstjórn sem nýtur stuðnings meirihluta sænska þingsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×