Erlent

Guðlagur hvatti Breta til samstöðu í Newsnight

Birgir Olgeirsson skrifar
Guðlaugur Þór í Newsnight sem er á dagskrá BBC.
Guðlaugur Þór í Newsnight sem er á dagskrá BBC. Newsnight
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands, sagðist fagna þeirri hugmynd að Bretar fái inngöngu í Fríverslunarsamtök Evrópu, EFTA, við útgönguna úr Evrópusambandinu. Þetta sagði Guðlaugur Þór í þættinum Newsnight á dagskrá breska ríkissjónvarpsins BBC.

Hann tók Ísland sem dæmi um land sem er hluti af Fríverslunarsamtökum Evrópu og hvernig það nýtir sér samninga sem gilda á evrópska efnahagssvæðinu en getur um leið gert sína eigin fríverslunarsamninga við önnur lönd í heiminum.

Hann sagði í Newsnight að ekki væri meirihluti fyrir aðild að Evrópusambandinu á meðal Íslendinga.

Guðlaugur bætti því við að hann hefði ekki áhyggjur af framtíð EFTA ef Bretar fengju þar inn og sagðist fremur jákvæður fyrir þeirri hugmynd.

„Ég tala hér vitaskuld fyrir sjálfan mig og við munum ekki skipta okkur af breskri pólitík,“ bætti Guðlaugur við.

Hann benti þó á að Bretar hefðu komið að stofnun EFTA og þá hefði umræðan verið sú sama. Bretar vildu stunda viðskipti við umheiminn en ekki tilheyra tollabandalagi.

Guðlaugur lagði áherslu á að breskir flokkar ættu að vera uppbyggilegir í nálgun þegar þeir huguðu að lausnum á framtíð Bretlands og ekki stofna til vandræða.

Hann sagði að þjóðir sem deila sömu sýn í Evrópu ættu að standa saman.

„Það mikilvæga er að Bretland er ekki að yfirgefa Evrópu og í Evrópu höfum við nokkur lög af samstarfi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×