Innlent

Hand­taka í Dan­mörku vegna rann­sóknar lög­reglunnar á Suður­landi á sex kílóum af hassi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi.
Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi. Vísir/Egill
Danskur karlmaður var fyrr í mánuðinum handtekinn í Danmörku og yfirheyrður af lögreglu þar í tengslum við rannsókn lögreglunnar á Suðurlandi á tæplega sex kílóum af hassi sem fundust í bíl sem íslenskur karlmaður ók að kvöldi 7. nóvember síðastliðins.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir í samtali við Vísi að maðurinn hafi verið látinn laus að lokinni skýrslutöku. Lögreglan vinni nú að því með dönskum og færeyskum lögregluyfirvöldum, sem og færeysku tollgæslunni, að kanna flutningsleiðir og mögulega hvaðan efnin eru upprunnin.

Lögreglan á Suðurlandi sendi frá sér tilkynningu vegna málsins þann 14. nóvember síðastliðinn. Þar kom fram að íslenskur karlmaður, fæddur árið 1997, hefði verið handtekinn sjö dögum áður þar sem hann var einn á vesturleið á Suðurlandsvegi um Mýrdalssand um klukkan 20.

Maðurinn var á vanbúnum bíl en lögreglumaður áttaði sig fljótlega á því að eitthvað meira vantaði upp á. Kom í ljós að maðurinn var próflaus og undir áhrifum fíkniefna.

Við leit í bifreiðinni fundust síðan tæp sex kíló af hassi sem maðurinn kannaðist við að flytja en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um efnin. Var maðurinn úrskurðaður í gæsluvarðhald til 19. nóvember en látinn laus þann 14. sama mánaðar en úrskurðaður í farbann.


Tengdar fréttir

Úr gæsluvarðhaldi í farbann vegna sex kílóa af hassi

Héraðsdómur Suðurlands hefur úrskurðað 21 árs gamlan íslenskan karlmann í farbann til 19. desember næstkomandi en hann var handtekinn fyrir viku eftir að í bíl hans fundust tæp sex kíló af hassi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×