Erlent

Tíu mánaða gömul stúlka og móðir hennar drepnar af birni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mæðgurnar Adele og Valérie.
Mæðgurnar Adele og Valérie.
Tíu mánaða gömul stúlka, Adele Roesholt, og móðir hennar, Valérie Théoret, voru drepnar síðastliðinn mánudag af grábirni þar sem þær dvöldu í afskekktum kofa í héraðinu Yukon í norðvesturhluta Kanada.

Eiginmaður Théoret og faðir Adele, Norðmaðurinn Gjermund Roesholt, fann konu sína og dóttur dánar þegar hann kom til baka í kofann síðdegis á mánudag en hann mætti grábirninum skammt frá kofanum.

Roesholt tókst að skjóta björninn og drepa hann en þegar hann kom að kofanum fann hann líkin af Théoret og Adele fyrir utan.

Théoret var í fæðingarorlofi og dvöldu þau Roesholt, sem er veiðimaður, í kofanum ásamt dóttur sinni. Roesholt var á veiðum þegar björninn réðst á mæðgurnar með þessum skelfilegu afleiðingum.  

Svæðið þar sem fjölskyldan dvaldi er við Einarson-vatn í Yukon og mjög afskekkt. Roesholt notaðist við neyðarsendi til að tilkynna um árás björnsins. Hann náði bæði sambandi við vini sína sem og við næsta þorp við kofann þar sem búa um 200 manns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×