Viðskipti innlent

Gjaldþrot Rosenberg nam 43 milljónum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá Kaffi Rosenberg, sem rekið var við Klapparstíg 27.
Frá Kaffi Rosenberg, sem rekið var við Klapparstíg 27.
Engar eignir fundust í búi Kaffi Rosenberg, tónleikastaðarins sem rekinn var við Klapparstíg 27. Staðurinn var tekinn til gjaldþrotaskipta í apríl, sem nú er lokið, en alls voru gerðar kröfur upp á rúmlega 43 milljónir króna í búið eins og fram kemur í Lögbirtingablaðinu.

Rosenberg var í eigu þeirra Kára Sturlusonar og Ólafs Arnar Ólafssonar um fimm mánaða skeið, frá febrúar fram í október í fyrra. Í umfjöllunum um sölu staðarins á sínum tíma var hún sett í samhengi við fjármálagjörninga hljómsveitarinnar Sigur Rósar, en Kári hafði annast málefni hljómsveitarinnar í rúmlega áratug.

Sjá einnig: Selja Rosenberg eftir fimm mánaða rekstur

Greint var frá því í september á síðasta ári að 35 milljónir króna hefðu horfið úr miðasölu fyrir tónleikaröð Sigur Rósar í Hörpu. Fyrrnefndur Kári hafði fengið 35 milljóna króna fyrirframgreiðslu af miðasölu tónleikanna hjá forstjóra Hörpu, Svanhildi Konráðsdóttur, sem þó sór af sér alla aðkomu að málinu. Þeim peningum virtist Kári síðan hafa ráðstafað í annað sem var viðburðinum í Hörpu og hljómsveitinni með öllu óviðkomandi.

Það var svo í upphafi árs sem Vísir greindi frá því að eigendur skemmtistaðarins Lebowski bar hefðu tekið við rýminu að Klapparstíg, þar sem opnuð var írska kráin The Irishman Pub.

Fyrstu árin var Rosenberg við Lækjargötu 2, eða allt til stórbrunans í apríl 2007 þegar sögufrægt hús á horni Lækjargötu og Austurstrætis gjöreyðilagðist. Tæpu ári síðar opnaði Rosenberg á ný við Klapparstíg 27.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×