Skoðun

Heimilin njóti ágóðans

Hildur Björnsdóttir skrifar
Orkuveitan er langverðmætasta eign Reykjavíkurborgar í fjárhagslegu tilliti. Borgin á um 94% hlut í félaginu. Síðustu ár hefur að ýmsu leyti tekist að ná böndum yfir reksturinn eftir langan óstjórnartíma. En hvað veldur árangrinum?

Í kjölfar hrunsins réðist Orkuveitan í aðgerðir til að rétta reksturinn við. Það gerðu flest fyrirtæki landsins. Orkuveitan bjó hins vegar við þann munað – ólíkt öðrum fyrirtækjum – að geta velt stórum hluta sinna rekstrarvandræða yfir á borgarbúa. Sérstakur árangur í rekstrinum var fenginn með gjaldskrárhækkunum, láni frá borgarbúum og frestun nauðsynlegra innviðafjárfestinga. Ráðstöfunum sem allar bitnuðu á borgarbúum.

Nú þegar reksturinn hefur náð jafnvægi væri eðlilegt að hlutur borgarbúa yrði réttur. Því fer þó fjarri. Áform standa nú til ríflega 14 milljarða arðgreiðslna til Reykjavíkurborgar næstu sex árin. Samhliða birtast engin áform um veglegar gjaldskrárlækkanir til neytenda. Heimilin greiddu fyrir rekstrarvanda Orkuveitunnar. Með sambærilegum hætti ættu þau að njóta ávaxtanna.

Ef horfið yrði frá arðgreiðsluáformum mætti nýta samsvarandi fjárhæð til gjaldskrárlækkana. Það gæti að meðaltali sparað hverju heimili nærri 50 þúsund krónur árlega. Gróflega áætlað samsvarar það tæplega 300 þúsund krónum næstu sex árin. Valið stendur milli þess að færa þessa fjármuni í hendur stjórnmálamanna eða færa þá í þínar eigin hendur.

Í efnahagskreppu hækkaði fyrirtæki í einokunarstöðu gjaldskrár á versta tíma fyrir sína viðskiptavini. Með einu pennastriki. Nú þegar rekstur Orkuveitunnar hefur verið réttur við hafa gjaldskrár ekki verið lækkaðar svo neinu nemur. Þessu þarf að breyta. Óþarflega háar gjaldskrár sem leiða til arðgreiðslna í hendur stjórnmálamanna eru ekkert annað en dulbúin skattheimta.

Á næsta borgarstjórnarfundi mun ég leggja fram tillögu þess efnis að Reykjavíkurborg hverfi frá arðgreiðslukröfum í eigendastefnu Orkuveitunnar. Gjaldskrár Orkuveitunnar verði lækkaðar á Reykvíkinga til samræmis. Þetta er pólitísk ákvörðun. Ávinningurinn væri tvíþættur. Orkuveitan færðist nær hlutverki sínu sem orkufyrirtæki í almannaeigu – og borgarbúar fengju bót í heimilisbókhaldið.


Tengdar fréttir




Skoðun

Sjá meira


×