Erlent

Sá síðasti í Olsen-genginu látinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Olsen-gengið hefur skemmt Norðurlandabúum um áratugabil.
Olsen-gengið hefur skemmt Norðurlandabúum um áratugabil.
Danski leikarinn Morten Grunwald er látinn 83 ára gamall. Hann hafði glímt við krabbamein í lengri tíma. Frá tíðindunum er greint í dönskum miðlum. Grunwald er Íslendingum að góðu kunnur fyrir leik sinn í bíómyndunum um Olsen-gengið sem Ríkisútvarpið sýndi um árabil. Alls voru gerðar fjórtán myndir um uppátæki gengisins.

Í þeim sagði frá bófagengi undir stjórn hugsuðarins Egon Olsen sem er höfuðpaurinn. Hver bíómynd hefst iðulega á því að Egon er sóttur í fangelsið af þeim Benny Frandsen, leikinn af Morten Grunwald, og Kjeld Jensen sem Poul Bundgaard lék.

Myndirnar voru afar barnvænar en bófarnir notuðu aldrei ofbeldi í ráðabruggi sínu. Egon kynnti þá Benny og Kjeld fyrir frumlegum hugmyndum sem hann hafði yfirleitt fengið á meðan fangelsisvistinni stóð. Myndunum lýkur svo yfirleitt með því að Egon er handtekinn eða hann jafnvel gefur sig fram við lögreglu.

Poul Bundgaard lést árið 1998 þegar hann var á 76. aldursári. Ove Sprogøe lést árið 2004 85 ára að aldri. Nú er Morten Grunwald einnig látinn og Olsen-gengið því í heild sinni fallið frá.

Að neðan má sjá stiklu frá 1968 en þar má einnig heyra ódauðlegt þemalag myndanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×