Körfubolti

Ívar: Íslenskir leikmenn þurfa að taka meiri ábyrgð

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ívar er landsliðsþjálfari kvenna í körfubolta
Ívar er landsliðsþjálfari kvenna í körfubolta vísir/daníel
Ívar Ásgrímsson, landsliðsþjálfari kvenna í körfubolta, segir fleiri íslenska leikmenn þurfa að spila ábyrgðarhlutverk í sínum félagsliðum. Íslenska landsliðið tapaði 52-82 fyrir því slóvakíska í Laugardalshöll í dag.

„Ég er svekktur með þetta stóra tap því við vorum í þrjá leikhluta að gera mjög vel. Þetta er full stórt tap, maður hefði kannski sætt sig við 10-15 stiga tap, það hefði kannski verið sanngjarnt,“ sagði Ívar í leikslok. Íslenska liðið hefur tapað öllum fimm leikjum sínum í undankeppni EM til þessa.

„Við vorum fljótar að brotna og þær skora 12-0 í byrjun fjórða, þá var leikurinn búinn.“

„Mér fannst við vera að spila vel fyrstu þrjá leikhlutana og gera vel. Vandamálið er bara það að okkur vantar fleiri leikmenn sem geta búið eitthvað til. Helena var sú eina sem var að búa til og hún var orðin þreytt í lokin.“

„Við þurfum fleiri leikmenn sem geta gert eitthvað fyrir okkur. Ég hef bent á það að þetta er erfitt fyrir okkur, þegar við horfum á íslensku deildina og 90 prósent af liðunum eru með Kana sem skorar 40-50 stig í leik. Það eru fáir íslenskir leikmenn sem bera einhverja ábyrgð í þessum liðum og því þarf að breyta. Íslenskir leikmenn þurfa að stíga upp.“

Ívar vildi þó ekki að orð sín yrðu túlkuð þannig að banna ætti Bandaríkjamenn í íslensku deildinni.

„Það líka styrkir deildina og gerir aðra betri. En við þurfum samt sem áður að setja meiri ábyrgð á íslensku leikmennina. Ekki alltaf treysta á að Kanarnir klári hvern einasta leik. Við þurfum að fá fleiri íslenska leikmenn sem eru að taka ábyrgð.“

„Við erum með stelpur sem geta spottað upp og skotið og svoleiðis en þá vantar okkur leikmenn sem geta búið eitthvað til fyrir þær.“

Hvað þarf Ívar að leggja áherslu á á æfingum næstu daga fyrir lokaleikinn gegn Bosníu á miðvikudag.

„Við þurfum í fyrsta lagi að lengja líftíma okkar. Við þurfum að finna lausnir í sókninni og geta búið til eitthvað meira í sókninni en það sem Helena er að búa til, það þurfa fleiri að búa til færi fyrir okkur. Við verðum svolítið einhæf að það sé bara einn maður að búa eitthvað til, það þurfa fleiri að stíga upp,“ sagði Ívar Ásgrímsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×