Innlent

Sagafilm verðlaunað fyrir jafnan hlut kvenna í starfi og framleiðslu

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Sagafilm var verðlaunað fyrir að jafna hlut kvenna í starfi sínu og framleiðslu í morgun
Sagafilm var verðlaunað fyrir að jafna hlut kvenna í starfi sínu og framleiðslu í morgun Vísir/Baldur
Sagafilm hefur hlotið hvatningarverðlaun jafnréttismála 2018 fyrir að hafa jafnað hlut kynjanna þegar kemur að starfsmönnum og stjórnun auk fleiri kvenhlutverka í framleiðslu.

Að verðlaununum standa atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Festa og Háskóli Íslands auk þess sem sérstakur samstarfsaðili er UN Women á Íslandi.

Markmiðið með verðlaununum er að vekja jákvæða athygli á fyrirtækjum sem hafa jafnrétti að leiðarljósi í starfi sínu og hvetja önnur fyrirtæki til hins sama.

Niðurstaða dómnefndar var að veita Sagafilm verðlaunin fyrir að hafa sett skýr markmið varðandi að jafna hlut kvenna í starfi sínu og framleiðslu og óhikað hrundið þeim í framkvæmd.

Hilmar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Sagafilm, segir fyrirtækið hafa sett jafnréttisstefnu í upphafi síðasta árs með þessum fína árangri.

„Í kjölfarið urðu breytingar hér hjá okkur þar sem markvisst var verið að vinna að jöfnun kynjanna með vali á efni sem við framleiðum. Einnig hvað varðar val á leikstjórum og handritshöfundum. Svo fórum við í gegnum jafnlaunavottun til að klára þennan feril okkar og fengum vottun núna í vor,“ segir Hilmar.

Það er nú jafn margar konur og karlar í starfsmannahópi Sagafilm og einnig í framkvæmdastjórn fyrirtækisins. Eins og áður segir sést einnig jafnari kynjahlutföll í framleiðslunni.

„Nærtækasta dæmið er Flateyjargáta sem var frumsýnd í gær með konu í aðalhlutverki og þetta er þriðja þáttaröðin í röð þar sem aðalhlutverkið er í höndum konu. Við erum að fara í stórt verkefni eftir áramót sem er tíu þátta sjónvarpssería þar sem kona er aðalleikstjóri, þannig að það eru næg tækifæri,“ segir Hilmar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×