Erlent

Meðferð við legslímuflakki í augsýn

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Stofnfrumur má nýta í baráttunni gegn sjúkdómnum.
Stofnfrumur má nýta í baráttunni gegn sjúkdómnum. Getty/iStock
Rannsakendur Northwestern-háskóla í Chicago hafa tekið fyrstu skref í átt að meðferð við legslímuflakki, eða endómetríósu. Rannsókn vísindamannanna, sem birt var í vísindaritinu Stem Cell Report í gær, sýnir fram á að hægt er að hagnýta fjölhæfar stofnfrumur til að koma í stað frumna í legi kvenna sem valda sjúkdóminum. Stofnfrumurnar eru unnar úr líkama viðkomandi einstaklinga, og því ólíklegt að líkaminn hafni frumunum.

Legslímuflakk er sjúkdómur sem rekja má til þess að frumur úr legi kvenna rata á aðra staði í kviðarholinu og skila sér ekki út úr líkamanum við blæðingar. Sjúkdómurinn er krónískur og afar sársaukafullur.

„Þetta eru risavaxin tíðindi,“ segir Serdar Bulun hjá Northwestern, sem rannsakað hefur legslímuflakk undanfarna áratugi. Bulun segir að næsta skref verði að koma endurforrituðum stofnfrumum fyrir í legi kvenna sem glíma við sjúkdóminn. „Einn daginn vonumst við til að geta ræktað heilt leg með því að nýta stofnfrumur viðkomandi einstaklings.“




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×