Erlent

Hareide setur lands­fundar­full­trúum úr­slita­kosti

Atli Ísleifsson skrifar
Knut Arild Hareide segist ætla segja af sér sem formaður ákveði landsfundur að flokkurinn skuli áfram tilheyra bláu blokkinni í norskum stjórnmálum.
Knut Arild Hareide segist ætla segja af sér sem formaður ákveði landsfundur að flokkurinn skuli áfram tilheyra bláu blokkinni í norskum stjórnmálum. EPA/Lisa Aserud
Knut Arild Hareide, formaður Kristilega þjóðarflokksins í Noregi, segist munu segja af sér sem formaður flokksins, ákveði landsfundur að vera áfram hluti bláu blokkarinnar í norskum stjórnmálum.

Kristilegir demókratar verja stjórn Hægriflokksins, Framfaraflokksins og Venstre falli og er ljóst að ríkisstjórn Ernu Solberg forsætisráðherra myndi falla ákveði Kristilegi þjóðarflokkurinn að ganga til liðs við Verkamannaflokkinn og hina flokkana í rauðu blokkinni.

Aukalandsfundur Kristilega þjóðarflokksins fer nú fram í Gardermoen. Hareide ávarpaði landsfundinn í morgun þar sem hann greindi frá ákvörðun sinni. Búist er við að það muni liggja fyrir síðdegis hvor leiðin verði ofan á – að flokkurinn verði áfram stuðningsflokkur ríkisstjórnarinnar, eða gangi til liðs við rauðu blokkina.

Bláliðar fleiri

Norskir fjölmiðlar hafa fylgst grannt með því síðustu daga hvaða fulltrúa héraðssambönd flokksins velja til að taka sæti á þinginu, og liggur fyrir að aðeins fleiri „bláliðar“ hafi valist á þingið.

Hareide náði því í gegn í morgun að kosningin verði leynileg. Hareide hefur sagt bilið milli Kristilega þjóðarflokksins og hægripopúlistaflokksins Framfaraflokksins sé orðið of breitt og að flokkurinn eigi mun meira sameiginlegt með Miðflokknum sérstaklega. Hann segir að flokkur Solberg, Hægriflokkurinn, hafi ákveðið að feta ákveðna braut þegar hann ákvað að ganga til stjórnarsamstarfs með Framfaraflokknum.

Klofinn í herðar niður

Kristilegi þjóðarflokkurinn er klofinn í herðar niður vegna málsins þar sem varaformennirnir Kjell Ingolf Ropstad og Olaug Bollestad og leiðtogi ungliðahreyfingar flokksins eru allir ósammála formanni sínum.

Kristilegi þjóðarflokkurinn á átta þingmenn á norska þinginu og hefur sjaldan eða aldrei mælst með minna fylgi en í skoðanakönnunum nú.


Tengdar fréttir

Hægri stjórn Ernu Solberg í Noregi gæti fallið

Hægri stjórn Ernu Sólberg í Noregi gæti fallið á næstu dögum en Kristilegi þjóðarflokkurinn ákveður á morgun hvort hann stendur með stjórnarflokknum eða hallar sér til vinstri. Forsætisráðherrann er þó bjartsýn á að hún haldi forsætisráðherrastólnum. Heimir Már er í Osló.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×