Körfubolti

Brynjar: Öðruvísi tilfinning en gaman

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
Brynjar í baráttunni í kvöld.
Brynjar í baráttunni í kvöld. vísir/daníel
Tindastóll tapaði í fyrsta skipti á þessu tímabili í Dominos deild karla þegar þeir heimsóttu KR.

Brynjar Þór Björnsson leikmaður Tindastóls var að spila á móti KR í fyrsta skipti í Íslandsmótinu en hann hefur safnað titlum í Vesturbænum síðan hann var í grunnskóla.

„Auðvitað svekkjandi að tapa en ef við lítum á leikinn þá vorum að gera alltof mikið af mistökum. Bæði varnarlega og sóknarlega. Á erfiðum útivelli eins og í KR-heimilinu þá getum við ekki gert svona mikið af mistökum.”

Hvernig var tilfinningin að vera á útivelli í kvöld?

„Það er bara gaman, það er öðruvísi tilfinning. Það er gaman að spila fyrir framan bæði KRinga og svo Skagfirðingana, þeir styðja vel við liðið og gerðu það í kvöld. Þeir mæta á útileiki líka sem er hrikalega gaman.”

Eins og Vísir greindi frá í vikunni fer Urald King í fæðingarorlof í mánuðinum og verður ekki með liðinu í samtals tvo mánuði.

„Það er bara verkefni sem við þurfum að tækla en auðvitað er þetta ekki óskastaða að missa hann út þar sem það sást alveg í kvöld að við þurfum að vinna í mikið af hlutum. Það er alveg sárt að missa hann í það.”

Tindastól gekk illa allan leikinn í að ná varnarfráköstum, sérstaklega í fyrri hálfleik þar sem KR náðu í 11 sóknarfráköst.

„Þeir vildu þetta miklu meira, þeir fóru á eftir boltanum, voru miklu ákveðnari og voru komnir með ellefu sóknarfráköst í fyrri hálfleik."

„Skoruðu fimmtán stig útaf þeim. Þeir skoruðu bara 48 stig í fyrri hálfleik svo ef við hefðum getað tekið þessi stig út hefði vörnin verið góð. Við verðum að stíga út.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×