Sigurlaug Sunna Hjaltested, 19 ára starfsmaður veitingastaðarins, segir ekkert hafa bent til þess að staðnum yrði lokað. Starfsfólk hafi unnið sínar vaktir á laugardagskvöldið og því verið verulega brugðið við tilkynninguna á sunnudag.
„Við unnum á laugardaginn og svo á sunnudag var sagt að staðnum yrði lokað og við boðuð á fund á mánudaginn,“ segir Sigurlaug Sunna sem hafði starfað á veitingastaðnum frá opnun.


Hafa reynt að ná í yfirmenn án árangurs
Staðurinn var í eigu félagsins La Dolce Vita ehf. en félagið keypti staðinn í apríl 2017 og tók yfir rekstur hans. Veitingastaðurinn Uno var áður til húsa í umræddu húsnæði.Einn eiganda staðarins, Samúel Guðmundsson, situr í bankaráði Landsbankans en hann er á meðal þeirra sem starfsmenn hafa reynt að ná í. Hann hefur ekki svarað starfsfólki en að sögn Sigurlaugar Sunnu var hann fastagestur á staðnum og var það yfirleitt skráð í reikning hjá staðnum.
Amma Sigurlaugar Sunnu, Sigrún Vala Valgeirsdóttir, vakti athygli á málinu á Facebook-síðu sinni þar sem henni blöskraði framkoma eigenda staðarins. Hún skorar á Samúel að greiða starfsfólki laun sín sem allra fyrst.
„Ég fæ mig ekki til að skilja hverning hann ætti með góðri samvisku að geta skálað í dýru víni, slegið í golfkúlu, veitt lax, brosað, sofið eða gert nokkurn skapaðan hlut fyrr en hann er búinn að því,“ segir Sigrún.
Fréttastofa hefur reynt að ná sambandi við Samúel Guðmundsson og Sæmund Kristjánsson, eigendur staðarins, án árangurs.