Kauphöll Íslands greindi frá umræddum metdegi í Facebook-færslu í dag. Þar kemur fram að þegar markaðir lokuðu síðdegis hafi verið gerð 277 viðskipti með Icelandair Group fyrir rúmar 948 milljónir, með áðurnefndri 39,2% hækkun hlutabréfa félagsins.
Aldrei hafa fleiri viðskipti verið gerð með félag á einum degi í yfir áratug, að undanskildum viðskiptum á fyrsta skráningardegi þriggja félaga. Heildarfjöldi viðskipta á hlutabréfamarkaði var jafnframt 605, sem gerir heildarfjölda dagsins þann mesta í tíu ár.
Þrefalt meiri viðskipti fyrir tíu árum
En hvað var að gerast þennan mikla viðskiptadag fyrir rúmum tíu árum síðan?Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, segir í samtali við Vísi að umræddur dagur hafi verið 3. október 2008, þ.e. föstudaginn áður en bankarnir féllu og Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, bað Guð um að blessa Íslands.
Þann dag var heildarfjöldi viðskipta 1917 og þar af voru 527 viðskipti með Kaupþing og 465 viðskipti með Landsbankann, samkvæmt tölum frá Páli. Því er ljóst að viðskipti dagsins eru töluvert minni á báðum vígstöðvum en fyrir tíu árum, þ.e. þegar litið er til heildarviðskipta og viðskipta með hlutabréf í einstöku fyrirtæki.

Þann 28. ágúst hríðféllu hlutabréf í Icelandair en daginn áður hafði Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri félagsins, tilkynnt um afsögn sína eftir að félagið lækkaði afkomuspá sína fyrir árið 2018. Þann 11. september gætti enn fremur tíðinda í Kauphöllinni en þá lækkaði hlutabréfaverð sökum óvissu í kringum skuldabréfaútboð WOW Air. Í kjölfarið hækkuðu hlutabréf í Icelandair Group töluvert.
Aðspurður segir Páll að ekki sé hægt að segja með fullri vissu hvað viðskiptin þýði þegar horft er til framtíðar.
„Þegar eru svona mikil tíðindi þá bregðast markaðir gjarnan við með miklum viðskiptum. Það náttúrulega skýrir þetta. En menn horfa misjafnlega á framhaldið og þessar aðstæður. Gjarnan er sýn manna mismunandi, sumir vilja kaupa og aðrir vilja innleysa hagnaðinn, eins og gerðist í dag.“