Verið er að flytja mann sem lenti í umferðarslysi á Suðurstrandarvegi á áttunda tímanum í morgun með þyrlu á sjúkrahús í Reykjavík. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi en þar segir að viðbragðsaðilar séu nú við vinnu á vettvangi skammt austan Herdísarvíkur.
Bíll fór þar út af veginum og valt. Var ökumaðurinn einn í bílnum og kastaðist hann út úr bifreiðinni. Tilkynningu um slysið barst klukkan 07:45 og eru viðbragðsaðilar frá Suðurnesjum og Suðurlandi á vettvangi. Eru einhverjar umferðartafir þar vegna umferðar viðbragðsaðila.
